148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:23]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja, vegna umræðna sem orðið hafa um dagskrá dagsins í dag, að þá er sennilega rétt, þó ekki væri nema Þingtíðindanna vegna, að rekja hvernig sú dagskrá fæddist. Á fimmtudaginn í síðustu viku sendi skrifstofustjóri þingmálaskrifstofu, í samráði við forseta, póst á formenn þingflokka þar sem, samkvæmt þeirri hefð sem hefur skapast frá og með miðjum vetri, gerð var grein fyrir því hvernig þingvikan yrði og hvaða mál, í aðalatriðum, yrðu á dagskrá þingfundadagana þriðjudag og fimmtudag sem við nú stöndum á. Á mánudag voru venjulegir fundir þingflokksformanna með forseta og forsætisnefndar með forseta. Þá var farið yfir dagskrána og þá var í öllum aðalatriðum ljóst hvernig hún yrði, bæði daginn eftir, á þriðjudaginn, og í dag. Á dagskránni í dag er það eina frávik frá þessu að enn er órædd tillaga hæstv. utanríkisráðherra um Evrópureglugerðina.

Síðdegis í gær sendi forseti formönnum allra þingflokka tölvupóst þar sem hann lýsti í nánari atriðum hvernig fyrirhugað væri að fundurinn væri í dag, þar á meðal að aftast á þá dagskrá kæmu að líkindum þingmál flutt af nefndum.

Fyrir hádegi í dag sendi forseti enn og aftur tölvupóst á formenn allra þingflokka þar sem hann áréttaði þessi skilaboð og kom fleirum á framfæri, þar á meðal um það hvenær mætti vænta atkvæðagreiðslna.

Tali um að skort hafi algerlega á samráð á forseti, í ljósi þessa, erfitt með að sitja þegjandi undir. Óski hv. þingmenn eftir því, sem engu að síður hafa haldið slíku fram, að fá það staðfest að hér sé farið með rétt mál skal ég afhenda þeim afrit af þessum tölvupóstum. Sjálfsagt mál.

Í öðru lagi er það svo, varðandi þá umræðu sem hér hefur staðið í dag og lyktir mála, að einfaldlega var farið að þingsköpum og vilji þingmanna í salnum réði úrslitum mála eins og vera ber. Bæði varðandi það að samþykkja afbrigði eða fella þau, ef vilji manna stóð til slíks. Hér var ekki annað gert en það að láta á það reyna hvort nægjanlegur stuðningur væri við það samkvæmt þingsköpum að mál færu á dagskrá.

Í ljós kom að svo var ekki í því tilviki að aukinn meiri hluta hefði þurft til að 11. dagskrármálið kæmist að. Og þá er það niðurstaðan. Lýðræðislega og rétt fram kölluð með atkvæðagreiðslu hér í salnum.

Síðan hafa menn talað um að svikið hafi verið samkomulag sem hér hafi verið gert fyrir þinghlé. Að vísu hafa að mestu leyti talað um það menn sem ekki voru viðstaddir þá fundi þar sem þau mál voru rædd. Ég tek það fram að ég hef ekki heyrt slíkar ásakanir með jafn sterkum orðum frá þeim þingflokksformönnum sem voru aðilar að því máli eins og frá sumum öðrum þingmönnum. Það mál var rætt á stuttum fundi forseta með þingflokksformönnum í hádeginu og forseti tók þar fram að hann hefði fylgst með því hvaða mál hefðu hlotið afgreiðslu úr nefndum og myndi gera það áfram. Nú er svo komið að á síðasta sólarhring, í gær og í dag, hafa, að mér sýnist, að minnsta kosti sex þingmannamál hlotið afgreiðslu og þar á meðal nokkur af þeim málum sem rætt var um fyrir hlé og komast þá á dagskrá hér í beinu framhaldi af því að nefndarálitum í þeim hefur verið dreift.

Ég fæ ekki betur séð en að ágætlega horfi með það að nokkurn veginn sé að nást sú niðurstaða í afgreiðslu mála út úr nefndum sem þarna var rætt um. Ég bið menn að hugleiða hvort það séu þá efni til þess að hafa jafn stór orð um svik og menn hafa gert hér í dag. Þetta hlýtur forseti að segja í lok, þó kannski ekki undir lok, þessarar löngu umræðu vegna orða sem hér hafa fallið fyrr í dag.