148. löggjafarþing — 65. fundur,  31. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Forseti segir að það sé ekki rétt að ekkert samráð hafi verið haft. Jú, eitthvert samráð var haft, og sendar hugmyndir um það hvernig dagskráin gæti litið út; yfirflokkur einnar var mál úr nefndum. Svo gerist það í gær að nefnd leggur fram nýtt mál. Ekki var um að ræða mál sem hafði verið lagt fram í 1. umr., komið á dagskrá, farið til nefndar, rætt þar, farið í umræðuferli, umsagnarferli, klárað og tekið úr nefnd og síðan lagt hér fram. Nei, meiri hluti nefndarinnar tekur það á dagskrá og búmm, út úr nefnd. Þá er þetta komið í þann flokk sem forseti þingsins túlkar sem samráð við okkur um mál úr nefndum. Eigum við þá bara að túlka orð forseta þannig að mál úr nefndum, sá undirflokkur, geti verið hvaðeina sem ríkisstjórninni eða meiri hluta í nefnd ákveður að búa til eða leggja fyrir nefndina og strax inn í þingið? Nei, þetta er ekki sanngjarnt, þetta er ekki málefnalegt, þetta er ekki einu sinni hefðbundið, þetta er mjög óvanalegt og ómálefnalegt.