148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru hinar eilífu vangaveltur. Það er eins og áður sagði, með vísan í 40. gr. stjórnarskrár, óheimilt að leggja á skatta nema með skýru lagaboði. Þannig leiðir af því ákvæði að almennt er óheimilt, líka stjórnvöldum, að taka gjald fyrir þjónustu sína eða úrlausnir. Stjórnvöld eiga ekki að taka sérstakt gjald fyrir það nema með skýru lagaboði.

Hér er á ferðinni frumvarp, þannig að það er auðvitað skýrt lagaboð að veita þessa heimild. En ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalds verður að byggjast á afar traustum útreikningi. Það er kannski það sem vantar tilfinnanlega í þetta hér, sérstaklega af því að við erum að tala um þetta rafræna, og við erum að tala um að ef manneskja mætir í þjóðskrá þarf manneskjan ein að bera allan kostnað við það hreinlega að skrifstofan er með opið. Í frumvarpinu er beinlínis heimilað að leggja inn ferðakostnað. Ferðakostnað hvers? Ferðakostnað forstjóra við að afla upplýsinga um hvernig þjóðskrá er í öðrum ríkjum? Er það kostnaður sem má leggja á þann sem óskar þjónustu?

Ég leyfi mér að segja að mér finnst þetta of víðtækt og of óljóst.