148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjárlaganefnd tók mjög vel í þessa beiðni um grunndæmi og ég þakka fjárlaganefnd kærlega fyrir það. Það var enginn sem setti sig neitt upp á móti því því að það væri einmitt nauðsynlegt fyrir nefndina að fá þær upplýsingar. Og hvernig nýtum við okkur þetta grunndæmi í kjölfarið? Það vantaði svör við seinni tveimur spurningunum. Án þeirra getum við í rauninni ekki notað þetta rosalega mikið. Það hjálpar vissulega til að sjá aðeins hver grunnreksturinn er ákveðinn. Það eru mjög góðar upplýsingar og ætti tvímælalaust að taka þær inn í fjárlagavinnuna yfirleitt, að birta þetta grunndæmi, birta hver grunnkostnaðurinn er og sundurliða dálítið þannig að maður sjái áherslur stjórnvalda hverju sinni og svigrúm sem það hefur.

Það spilar einmitt yfir í stefnumótunina að vissulega er það á ábyrgð ráðherra að fara ekki umfram fjárheimildir, en gagnrýni mín snýr að því hvaða mælikvarðar og markmið eru sett. Ef ekki eru sett nein markmið og engir mælikvarðar vitum við ekki hvaða árangri það nær að setja auknar fjárheimildir í það málefnasvið. Það væri hægt að setja eitthvert markmið með mælikvarða upp á að ná 90% af því markmiði, eitthvað svoleiðis, og við sæjum að ákveðið væri að setja 200 milljónir eða svo í það, en ef að lokum niðurstaðan yrði að bara 80% næðust getum við spurt ýmissa spurninga, hvaða hnökrar hafi verið á, það hafi verið búist við að meira næðist, eða var bara vanáætlun? Þá fáum við fleiri upplýsingar.

Ef ekki er sagður neinn mælikvarði höfum við ekki hugmynd um hvaða árangri kostnaðaráætlunin og peningarnir sem voru settir í verkefnið — til hvers? Hvers væntum við að fá út úr auknum fjárútgjöldum? (Forseti hringir.) Í umfangi þessarar fjármálaáætlunar myndi ég halda að það væri einmitt þessi risastóra spurning sem við þyrftum að svara ef við værum að auka útgjöld þetta rosalega mikið, eins og kom fram í áliti meiri hlutans: Hvað ætlum við að gera með þennan pening?