148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um skattleysi uppbóta á lífeyri. Hv. flutningsmaður Guðmundur Ingi Kristinsson fór ágætlega yfir málið og rakti tilurð þess þannig að ég þarf ekki að gera það. Ég tel ástæðu til að taka undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og færa þakkir til þingmanna Flokks fólksins fyrir að hafa vakið máls á þessu og fyrir að það hafi með ágætri samvinnu við flutningsmenn og nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd fundist leið til að koma því í þann farveg að það klárist örugglega þessum hópi til hagsbóta.

Hv. þingmanni er kunnugt um það, eins og mér, að sú umræða hefur verið uppi lengi að í því felist ákveðið óréttlæti að telja það fólki til tekna að fá stuðning frá samfélaginu til að geta tekið þátt í því, þ.e. þegar um fatlanir er að ræða sem krefjast hjálpartækja. Þess vegna er afar mikilvægt að við klárum málið. Ég veit ekki hvort ég er kominn í sama jólaskap og hv. þingmaður en auðvitað væri ljómandi gott að þetta yrði klárað með því að hæstv. ráðherra væri falið að leggja fram frumvarp fyrir 1. nóvember. Það eiga a.m.k. að vera öll skilyrði til þess að hægt verði að klára þetta mál um leið og fjárlög verða afgreidd, fullfjármagnað og án nokkurra vandræða.