148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[19:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma upp til að ræða þessa atkvæðagreiðslu en verð eiginlega að svara því fádæma bulli sem kom frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. (ÓBK: Þakka þér fyrir.) Gerðu svo vel. (Gripið fram í.) Þetta mun ekki finna nokkurn skapaðan hlut út enda höfum við sett ýmis lög um ýmis réttindi, t.d. eignarréttinn sem mörgum samflokksmönnum hv. þingmanns er einkar annt um, og gerir það ekkert annað en að styrkja þau stjórnarskrárbundnu réttindi. Það sem hins vegar kemur út úr þessum lögum er að sjálfsögðu að núna er miklu meiri réttarheimild fyrir því að fólk leiti réttar síns á ódýrari hátt hjá kærunefnd, sem er eitthvað sem fólk hefur vantað þar sem ekki hafa allir efni á að leita úrlausna sinna mála hjá dómstólum. Hér komum við að stjórnsýslulegum úrræðum til að vinna gegn mismunun á Íslandi, sem hefur vantað. Við erum eftirbátar annarra þjóða hvað það varðar og þetta er mikil réttarbót. Það er engin veiking á þeim réttindum í því falin, einungis styrking.