148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Það eru dæmi um að menn hafi samið um niðurstöðu atkvæðagreiðslu við þinglok hvernig menn muni greiða atkvæði um mál. Ég skal nefna slíkt dæmi.

Hv. fyrrverandi þingmaður, Kristján L. Möller, átti þingsályktunartillögu um að byggður skyldi nýr Landspítali við Hringbraut. Menn féllust ekki allir á það, svoleiðis að gerð var málamiðlun. Í stað þess að lögð yrði fram tillaga um nýjan Landspítala við Hringbraut féllust allir á að sameinast um tillögu um að dyttað yrði að spítalanum og hann lagaður í samræmi við þær miklu þarfir sem þá voru á viðhaldi á spítalanum.

Hér er hins vegar ekki verið að fara fram á að menn samþykki tillöguna. Hér er ekki verið að fara fram á að menn sameinist um þessa tillögu. Það er eingöngu verið að fara fram á að menn fái að lýsa afstöðu sinni til hennar í atkvæðagreiðslu, segja já eða nei, eða sitja hjá eftir atvikum.

Virðulegi forseti. Hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) er ekki hægt að leyfa þingmönnum í samræmi við samkomulag að lýsa afstöðu sinni til þessarar tillögu?