148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég flutti nefndarálit meiri hluta í gær og hafði til þess mjög stuttan tíma, meira að segja það stuttan að mér láðist að þakka nefndarmönnum í hv. utanríkismálanefnd kærlega fyrir samstarfið í þessu máli. Mér láðist líka að taka fram að undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásgerður K. Gylfadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Logi Einarsson, Smári McCarthy og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Ég held að við séum með mjög gott mál í höndunum. Það var vissulega ansi snúið í ljósi þess að við höfum ekki sérstakt félagaform utan um samstarf ríkis og einkaaðila eða þriðja geirans. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem hefur vaxið í kjölfarið um nauðsyn þess að það verði skoðað, enda er það eitt af bráðabirgðaákvæðunum í þessum lögum núna. Ég held að við getum öll fagnað því að þetta frumvarp hljóti hér samþykki og verði að veruleika.