148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[21:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hér er verið að stuðla að því, eins og segir í nefndaráliti, að með persónuupplýsingar verði farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Því er um að ræða umfangsmiklar breytingar í frumvarpinu til viðbótar við þann rétt sem er að finna í núgildandi löggjöf þar sem meginreglur um vinnslu persónuupplýsinga, réttindi skráðra og skyldur ábyrgðaraðila standa óbreytt í evrópsku reglugerðinni og um er að ræða ýmsar grundvallarbreytingar og viðbætur við gildandi reglur. Það er í takt við umfangsmiklar breytingar sem hafa orðið og eru að eiga sér stað á þessu sviði um allan heim. Þá um leið eykst þrýstingur á að samræma slíkt regluverk á þessu réttarsviði sem og mörgum öðrum, eins og verið er að gera með þeirri reglugerð sem við erum að lögfesta og við höfum upplifað svo sem á undanförnum árum og misserum með þátttöku okkar í alþjóðastarfi og með aðild okkar að EES-samningnum.

Fram hefur komið í máli hv. þingmanna og samnefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd að tíminn var knappur til að fjalla um málið, en á sama tíma er margt sem knýr á um að það verði klárað á þessu þingi, ekki síst frá atvinnulífinu sem er búið að vera á fullri ferð að búa sig undir hið breytta lagaumhverfi á þessu sviði.

Ég vil fá að bera sérstaklega niður í nefndarálitinu og lesa, með leyfi forseta:

Í sameiginlegri umsögn fjölmargra fulltrúa Samtaka atvinnulífsins „er áréttað mikilvægi þess fyrir atvinnulífið að frumvarpið verði að lögum eins fljótt og hægt er.“ — Það er því mikil pressa frá atvinnulífinu, eins og við sjáum, að við afgreiðum málið. — „Tafir á innleiðingu skapi óvissu sem veikt geti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi.“

Það segir enn fremur:

„EFTA-ríkin gáfu nýverið út yfirlýsingu um að eldri persónuverndartilskipun 95/46/EB gilti áfram í EES-samningnum þar til almenna persónuverndarreglugerðin hefði verið tekin upp í EES-samninginn. Fyrir nefndinni kom fram að Evrópusambandið hefði ekki andmælt yfirlýsingunni. Því ætti ekki að verða truflun á gagnaflutningi persónuupplýsinga á milli landa fram að upptöku gerðarinnar í EES-samninginn.“

Þetta er afar mikilvægt, virðulegi forseti, því að eina óvissan sem getur skapast er ef við drögum að innleiða gerðina eftir að gerðin er orðin partur af EES-samningnum.

Það segir:

„Í ljósi þeirra veigamiklu hagsmuna sem í húfi eru og þeirrar óvissu sem skapast ef innleiðing reglugerðarinnar dregst telur meiri hlutinn mikilvægt að hún verði innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi.“

Þessi staðreynd vegur að mínu viti þyngra en sú mikilvæga rýnivinna sem eðlilegt er að jafn viðamikið mál fái í þinglegri meðferð. Gerir nefndin grein fyrir þeim þætti í sérstökum kafla og áréttar nauðsyn þessa og leggur áherslu á að nýta tímann vel fram að hausti til að rýna ákvæði málsins og fara yfir önnur lög sem breyta þarf og vinna að fræðsluefni.

Markmiðin með þessari reglugerð eru tvíþætt, annars vegar réttindamiðuð áhersla á aukin réttindi til persónuverndar og meiri stjórn á eigin persónuupplýsingum, hins vegar að greiða fyrir virkni stafræns markaðar og tryggja samræmt flæði upplýsinga yfir landamæri. Af því leiðir að það eykur verulega skyldur og ábyrgð samhliða kostnaði á atvinnulífið, stofnanir og sveitarfélög.

Það skal viðurkennt, virðulegi forseti, að tilfinningin gagnvart málinu var blendin í upphafi, sú að meiri tíma þyrfti í þinglegri meðferð en síðan að þetta gæti náðst á tilsettum tíma.

Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka röskt, samstillt átak í vinnu samnefndarmanna í allsherjar- og menntamálanefnd, umsagnaraðilum sem komu hingað á mjög óvenjulegum tímum, frumvarpshöfundum sem gáfu nefndinni sérstaklega góðan tíma, glöggan og gagnlegan, og nefndasviði Alþingis. Er það allt þakkarvert.

Niðurstaðan er sú að ég hef nokkurt öryggi fyrir því að við séum að gera rétt með því að klára málið. Það er mikilvægt og vegur þyngra en að lifa með mögulegum ágöllum þess að málið sé unnið í þinginu með þeim hraða sem raun ber.