148. löggjafarþing — 78. fundur,  12. júní 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[22:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil árétta hér mikilvægi þessa máls og mikilvægi þess að það fái afgreiðslu þessa þings vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem það hefur fyrir almenning, vegna þeirra gríðarlegu réttarbóta sem þetta hefur fyrir almenning í landinu, rétt fólks til friðhelgis einkalífs og til persónuverndar. Það er rosalega mikilvægt.

En að sama skapi verð ég að taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og segja að þetta eigi ekki að verða að vana hér hvernig var komið fram með þetta mál. Það kom hingað inn þegar vika var eftir af starfsáætlun þingsins. Vika. Okkur var ætlað að vinna þetta mál á viku. Það sér hver maður að það er algjörlega út í hött að ætla sér að gera það, enda var það raunin að það var ekki mögulegt. Það þurfti líka að hafa töluvert fyrir því að hafa umsagnarfrestinn á tiltölulega ásættanlegum tíma, sem ég get ekki tekið undir að hafi verið ásættanlegur tími miðað við hvað málið er stórt og umfangsmikið.

Þó að ég greiði málinu atkvæði mitt er ég ekki að greiða atkvæði með því vinnulagi sem var viðhaft (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar við framlagningu málsins eða um þá (Forseti hringir.) takmörkuðu aðkomu sem almenningur hefur haft að því, sem hefur gríðarleg áhrif á hann.