149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og réttindi fatlaðs fólks.

[10:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Aðeins aftur að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hlýtur að vera okkar sameiginlega markmið að framkvæmd samningsins sé tryggð og þær leiðir sem bestar eru til þess að tryggja það eru þær leiðir sem við viljum fara. Bara þannig að það sé sagt. Það eru auðvitað ýmsar pælingar, ef svo má að orði komast, í þeim efnum, en ég lít svo á að tillaga hv. þingmanns snúist fyrst og fremst um það að tryggja framkvæmd samningsins í samfélaginu öllu.

Hins vegar spyr hv. þingmaður um sjálfsvígsmálin. Nú var það að gerast í Bretlandi að verið var að setja sérstakan ráðherra sem átti bara að fjalla um sjálfsvígsmál vegna þess hversu alvarlegur sá hluti geðheilbrigðismálanna er. Á Íslandi höfum við sjálfsvígsáætlun, þ.e. við höfum fengið niðurstöðu frá mjög öflugum starfshópi sem vann þær tillögur til mín. Í stuttu máli sagt hef ég fallist á allar þær tillögur sem þar hafa komið fram (Forseti hringir.) og þær má finna á vef ráðuneytisins. Ég hef þegar reynt eins og ég get að gefa þeim tillögum vængi með fjármagni.