149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:41]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Á Íslandi búa um 20 þús. öryrkjar. Sá fjöldi slagar upp í heilt kjördæmi. Sá fjöldi er svipaður og íbúafjöldi Akureyrar eða íbúafjöldi Reykjanesbæjar eða Breiðholts. Þetta er því stór hópur sem stjórnvöld mega ekki hunsa og eiga ekki að geta hunsað. Allir geta orðið öryrkjar en enginn kýs að búa við skerta starfsgetu.

Ég þreytist seint á að benda á að Ísland er ríkt land og í raun 11. ríkasta land í heimi. Það er því mikil skömm og í raun hneyksli að öryrkjar af öllum hópum þurfi að vera í stöðugri kjarabaráttu við stjórnvöld. Það er ekki náttúrulögmál að örorka þýði í allt of mörgum tilvikum fátækt. Það er pólitísk ákvörðun eða í raun skortur á pólitískri ákvörðun. Í þessum þingsal er þverpólitísk samstaða um að afnema krónu á móti krónu skerðingu. En sú samstaða nær ekki lengra en það því að enn vantar fjármagnið til að taka það skref.

Orð geta verið ódýr, ekki síst í þessum sal. Aðgerðir eru það sem þarf. Og af hverju er það ekki gert? Hér fer samfélagið ekki á hliðina ef króna á móti krónu skerðing gagnvart öryrkjum er afnumin.

Herra forseti. Ég hef nú lagt fram þingmál um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Með slíkri lögfestingu yrði Ísland í fararbroddi í réttindamálum fatlaðra og öryrkja á heimsvísu og skildi ég hæstv. heilbrigðisráðherra þannig í morgun að hún styddi það mál. Ég bind miklar vonir við að þverpólitísk samstaða sé um það mál, alveg eins og ég vonast til að þverpólitísk samstaða sé um afnám krónu á móti krónu skerðingu. Þá þurfum við að vera tilbúin til að fjármagna slíkt en ekki bara tala um það.