149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[12:20]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins fyrir að koma hér með 5 ára og 15 ára áætlun sem er afar mikilvægt. Ég sem gamall formaður samgönguráðs veit að á bak við þessar áætlanir liggur gríðarlega mikill tími og mikil vinna og þykist vita að félagar mínir í samgönguráði hafa oft tekist á um krónur og aura í þessu. Það munum við halda áfram að gera meðan samgönguáætlun verður í umræðu í þinginu. Við munum takast á um það hvað þarf að vera í forgangi og hvað ætti að bíða. Það hefði kannski verið gott ef við hefðum getað haft puttana á því áður en málið kom inn í þingið hvernig hlutunum væri ráðstafað. Um það snýst auðvitað öll þessi vinna, hvernig við náum saman að forgangsraða í þessari samgönguáætlun og niðurstaðan verði þannig að allir séu sæmilega óánægðir.

Mig langar reyndar áður en ég held lengra að þakka hæstv. ráðherra sérstaklega viðbrögð hans við ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar í gær, þar sem hann ræddi sínar hugmyndir um aðra leið. Mér finnst það sýna að ráðherrann vill ekki endilega taka þessa umræðu sem svart/hvíta, með eða á móti. Hann er tilbúinn að hlusta á rök og hlusta á tillögur. Mér finnst það góðs viti. Mér finnst það góð byrjun á þessari miklu vinnu sem er fram undan að við séum tilbúin að taka hugmyndir upp á borðið sem gætu orðið okkur öllum til góðs. Þótt þær séu ekki endilega allar inni í samgönguáætlun núna þá gæti það verið einhver leið til þess að flýta fyrir framkvæmdum vegna þess að ég upplifi í þinginu, hjá þingmönnum og okkur öllum, gríðarlega óþolinmæði og væntingar um að hlutirnir gangi hraðar. Við heyrum það á öllum. Hér hefur komið sérfræðingur í fluginu og talað. Það eru allir að bíða eftir því að við gerum meira.

Það er auðvitað ágætt innlegg að til sé önnur leið eins og hv. þm. Jón Gunnarsson minntist á í gær. Ég velti því fyrir mér þegar við erum að tala um þessi mál, 15 ára samgönguáætlun, að ef ég á að bíða eftir því að Reykjanesbrautin klárist eftir 15 ár þá verð ég kominn á áttræðisaldur, langt genginn á áttræðisaldur. Ég og íbúar á Suðurnesjum höfum bara ekki þann tíma. Við eigum ekki þá þolinmæði. Ég held að það sé málið. Þótt allir séu að gera sitt besta þá er þessi þolinmæði ekki til í samfélaginu.

Eiga Vestfirðingar einhverja þolinmæði til að bíða eftir vegabótum? Ég er búinn að fara tvisvar á Vestfirði með skömmu millibili og segi nú bara: Ef þeir hafa það þá eru þeir mjög þolinmóðir. Það er alveg ljóst að Dýrafjarðargöng eru náttúrlega hálf framkvæmd ef ekki á að halda áfram að tengja þau við heilbrigða vegakerfið sem er þó til staðar, en er alls ekki í kringum þessa staði fyrir vestan.

Þegar atvinnuveganefnd var á ferðinni um daginn á suðurfjörðum Vestfjarða og hittu sveitarstjórnarfólk í Vesturbyggð og ræddu vegamálin þá sagði það: Komið með vegina, við skulum borga veggjöldin. Það stendur ekkert á okkur með það. Við viljum vegi. Ef þarf veggjöld þá erum við tilbúin í það. Ég veit að ráðherrann hefur heyrt þetta líka eins og við og hefur skilning á því. Ég er alveg sannfærður um það að þegar þessari umræðu er lokið og málið hefur farið í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd þá mun koma út úr þessu góð niðurstaða. Ég ætla að treysta því. Niðurstaða sem verður til þess að menn hafi meiri þolinmæði til að bíða eftir framkvæmdunum sem munu þá taka einhver ár. Ég ætla að vona það. Atvinnulífið fyrir vestan getur ekki beðið eftir þessu. Vegirnir eru ófærir í rigningum yfir hásumartímann. Það er bara þannig.

Ég er mjög ánægður og sáttur við þessar undirtektir hæstv. ráðherra, að vilja skoða aðrar leiðir, vera tilbúinn í það jafnhliða því að samgönguáætlun er rædd. Ég held að það séu heilbrigð vinnubrögð í þinginu að gera það á þann hátt, ekki vera skellandi hurðum og segja: Það er bara þetta sem við ætlum að ræða. Það er ekki gert hér. Ég er afar sáttur við það.

Ég ætla líka að taka undir upphafsorð ráðherra í framsögu hans í gær þar sem hann í tvígang tók það sérstaklega fram að öryggi væri mikilvægur grunntónn í samgönguáætlun, eins og hann orðaði það. Hann lagði mikla áherslu á öryggið og ræddi um slysin sem kosta 50 milljarða á ári og eru mörg hver auðvitað hræðileg. Við tökum heils hugar undir þetta. Það þarf að gera vegabætur til þess að koma í veg fyrir öll þessi hörmulegu slys, eins mikið og nokkur kostur er .

Á Suðurnesjum er fjölfarnasti vegur landsins sem ótrúlegur fjöldi íbúa fer um og næstum allir ferðamenn, eða ég veit ekki hversu hátt hlutfall þeirra 2,3 milljóna ferðamanna sem hingað koma, nota á hverju ári, en það keyra 20.000 bílar um brautina á dag. Mér sem íbúa á Suðurnesjum finnst of langt að bíða til 2033 eftir því að síðasti áfanginn verði kláraður. Það er of langt. Það er búið að gera verulega bragarbót suður frá á hringtorgum og núna á Grindavíkurvegi, en þetta er of langur tími. Ég segi í þessari umræðu að það verður að finna leiðir til þess að flýta þessum áföngum, sérstaklega að klára tvöföldunina inn í Hafnarfjörð og auðvitað gegnum Garðabæ líka. Ef við finnum ekki þá leið þá er hv. þm. Jón Gunnarsson með tillögu og hv. þm. Birgir Þórarinsson er líka með áhugaverða tillögu sem mér finnst að við eigum að skoða. Fyrir mína parta held ég að það sé mjög mikilvægt að það verði skoðað í fullri alvöru.

Það er auðvitað margt fleira sem ég hefði viljað tala um, en stuttur ræðutími takmarkar það. Fyrir austan vil ég nefna framkvæmdir við Hornafjarðarfljót. Hornfirðingum finnst það koma nokkuð seint, þær framkvæmdir eiga að klárast 2023. Það hafa miklar væntingar verið til þess að það yrði fyrr. Ég veit ekki hvort við getum þokað því framar. Kannski er hægt að gera það að einhverju leyti. Níu einbreiðar brýr eiga að hverfa. Það er gríðarlegt verkefni. Það er mjög mikilvægt verkefni. Ég veit að ráðherrann hefur sérstakan skilning á því. Við erum nýbúnir að keyra þetta saman og þá töluðum við um að það væri kannski hugmynd að rífa gömlu brúna yfir Morsá sem er fleiri hundruð metra löng og nota kannski bitana úr henni til þess að spara pening og nota þar sem eru einbreiðar brýr. Gullni hringurinn, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, eru svæði sem kalla líka eftir fjármagni. Það er verið að gera góða hluti hjá Hveragerði og austur fyrir Ölfusá. Það hefur staðið lengi til. Ég fagna því.

Ég bendi líka á vegi á hálendinu eins og veginn um Landmannalaugar. Það kostar auðvitað eitthvað að hækka hann aðeins til þess að ekki þurfi endalaust að vera að hefla hann, hann losar sig ekki við vatnið og á meðan er þetta alltaf meira og minna ófært.

Ég hefði líka viljað fara yfir flugið. Það koma 600 milljónir inn til viðhalds. Það er gott. Skoska leiðin er í umræðu. Ráðherrann hefur beitt sér fyrir því. Það er nefnd að skila skýrslu um það verkefni. Ég treysti því að þar komi góð skilaboð fyrir landsbyggðina um að lækka kostnaðinn við flugið.

Hafnabótasjóður fær 5 milljarða. Það eru auðvitað gríðarleg verkefni þar fram undan við að skipta um stálþil í flestöllum höfnum landsins.

Það er margt mjög gott í þessu plaggi, en það fylgir því mikil óþolinmæði, menn eru óþolinmóðir að bíða eftir að allir þeir draumar sem samgönguáætlun átti að svara rætist, en með góðum vilja, góðu samstarfi, þá náum við því.