149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[13:01]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Borgarlína er náttúrlega ýmislegt eins og kom fram í þessu svari. En fyrst og fremst er verið að ræða um að byrja á því sem ég tilgreindi, sem er að greiða strætisvögnum sérstaka för um borgarlandslagið. Það er fyrsti áfangi sem við erum að tala um. Það mun ekki kosta 80 milljarða, nei. En hins vegar á að liggja fyrir samkomulag um að ríkið komi að þessum framkvæmdum og að þessi sérstaka akrein, sem á að vera fyrir strætisvagna um borgarlandslagið, mun náttúrlega bæði kosta töluvert rask og töluverðar framkvæmdir. Það er alls ekki einfalt að koma því fyrir alls staðar. Það mun náttúrlega kosta eitthvert fé. Eins mun það kosta eitthvert fá að byggja upp flota. Það mun líka kosta fé að fjölga ferðum strætisvagna, þannig að þjónustan sé raunhæfur og boðlegur kostur fyrir hinn almenna borgara eins og ég vænti og vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að brýnt sé að koma á fót.