149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[13:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um samgönguáætlun til næstu 15 ára frá 2019–2033 og samhliða þingsályktunartillögu um samgönguáætlun til fimm ára frá 2019–2023.

Við erum um svo margt háð samgöngum og lífsgæði okkar og lífskjör hvíla á greiðum og öruggum samgöngum. Þannig eru samgöngur á margan hátt lífæð okkar samfélags og mikilvæg grunnstoð í hagkerfinu og ráða miklu um uppbyggingu atvinnuvega, nýtingu auðlinda og verðmætasköpun byggða.

Hæstv. samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á það í framsöguræðu sinni að í fyrsta skipti er samgönguáætlun í samræmi við væntanlegar fjárveitingar; fjármálaáætlun 2019–2023 sem Alþingi samþykkti nú í vor. Það er ánægjulegt að í fyrsta skipti er þessi áætlun að því leyti raunhæf og þess vegna skynsamleg.

Ég ætla að taka undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem sagði að þingið ætti að læra af þeirri áætlun sem við samþykktum hér 2016 í aðdraganda kosninga sem var óraunhæft, ófjármagnað óskaplagg.

Þessi áætlun ber þess merki að við erum að læra. Þannig tekur áætlunin mið af og er hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga. Hún er í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og hæstv. ríkisstjórnar. Þá skal horfa sérstaklega til þarfa ferðaþjónustunnar eins og fram kemur í áætluninni og meta þarfir hennar fyrir bættar samgöngur. Formið að þessu leyti tel ég mikilvægt, virðulegi forseti, að áætlunin sé í takti við ríkisfjármálaáætlun og taki mið af meginmarkmiðum um öryggi og þarfir atvinnulífs og byggða. Þess vegna fagna ég því að horft sé til langs tíma eins og hér er gert, annars vegar til fimm ára og svo til 15 ára. Það er og í samræmi við lög um samgönguáætlun nr. 33/2008, og þess vegna er hér að finna stefnu í samgöngumálum og markmið fyrir allar greinar samgangna til næstu 15 ára, sem skiptist í þrjú fimm ára tímabil og er fyrsta tímabilið hér til 2023 þar sem tilgreindar eru framkvæmdir og aðgerðaáætlanir.

Í 1. gr. í markmiðskafla laganna segir enda:

„Markmið laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum.“

Okkur hefur því miður ekki tekist það hingað til að uppfylla þær skyldur, virðulegi forseti.

Aðdragandi framlagningar er því þó nokkur og felst í samráðsferli og samtali, svo að við getum forgangsraðað og unnið faglega að framlagningu þessarar áætlunar. Við gerð samgönguáætlunar er svo tekið mið af markmiðum um að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun, að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og í samstarfi stofnana og fyrirtækja á þessu sviði. Þetta kallar á gífurlegt samráð og er mikilvægt að vel takist til, og að áætlanir sem tengjast samgöngum séu í takti.

Þá tekur samgönguáætlun til fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála, siglingamála og þar með talið almenningssamgangna, hafnarmála, sjóvarna, öryggismála, umhverfismála og samgöngugreina og skal þar tilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Áætlunin byggir á þessum meginmarkmiðum um það að samgöngur séu greiðar, þær séu hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar, auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Það sem einkennir kannski ekki síst þá áætlun sem við ræðum hér er að mið er tekið af því að þessar áætlanir allar og þessar samgöngur allar, allar ólíkar greinar samgangna, tali saman. Svo er, eins og fram hefur komið í umræðunni og hæstv. ráðherra fór yfir, unnið að sérstaklega flugstefnu sem snýr að fluginu. Það er vel. En þess utan þarf að taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best og að við tökum mið af samgönguframkvæmdum í landinu í heild og svo í einstökum landshlutum eins og gert er í áætluninni.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar er alveg skýrt að setja á samgöngur í forgang. Það á að gæta að jafnvægi og tækifærum allra sem landið byggja, treysta samráð og stuðning við sveitarfélög að því er varðar uppbyggingu innviða og byggðaþróunar og gera betur í því að tryggja landsmönnum aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Þetta eru áform hæstv. ríkisstjórnar. Þau birtast í þessari áætlun og reyndar fór hæstv. ríkisstjórn af stað þegar á þessu ári.

Ríkisstjórnin boðaði átak á sviði innviða, samgangna og þessi áætlun ber sannarlega merki þess að verið er að hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum, bæði með nýframkvæmdum, reglulegu viðhaldi og uppsafnaðri viðhaldsþörf. Við forgangsröðun í vegamálum er sérstaklega litið til stöðu ólíkra svæða, ferðaþjónustunnar og öryggissjónarmiða, eins og kemur svo vel fram í markmiðskafla áætlunarinnar.

Það eru fleiri þættir í þessu. Ég nefni innanlandsflugið og fleiri hlið inn í landið, svæði til uppbyggingar ferðaþjónustu, almenningssamgöngur og samstarf við samtök sveitarfélaga, möguleika gangandi og hjólandi í þéttbýli og ekki síst fjarskipti og ljósleiðaravæðingu — huga þarf að þessum þáttum í þeirri viðleitni að auka lífsgæði og fjölga tækifærum landsmanna til að skapa atvinnu. Allt er þetta að finna í þessari áætlun og mikilvægt að hafa í huga að þessar áherslur hæstv. ríkisstjórnar koma fram í þessari áætlun. Við þurfum að meta þær í samhengi við stjórnarsáttmála og þá áætlun sem er hér.

Virðulegi forseti. Þessi áætlun er skynsamleg og raunsæ að þessu leyti. Hún er í takt við þau áform hæstv. ríkisstjórnar sem birtast í stjórnarsáttmála og að sama skapi í takt við það sem lög mæla fyrir um, þ.e. hún er fjármögnuð, tekur mið af grundvallarmarkmiðum og er hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga.

Hæstv. ríkisstjórn hófst þegar handa á þessari vegferð á þessu ári með því að bregðast við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda undanfarinna ára. Áætlunin miðast svo við að auka framlag til viðhalds í 10 milljarða kr. á ári frá árinu 2019. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald á vegakerfinu næstu fimm árin.

Við komumst auðvitað langt með þá upphæð, en hún hrekkur þó ekki til til að mæta uppsöfnuðum vanda á þessum tíma og eins hratt og við flest vildum. Það hefur hæstv. ráðherra samgöngumála bent á, og m.a. í ræðu sinni, að nefnd á vegum hæstv. ráðherra er að skoða þá möguleika að auka framkvæmdahraðann og auka fjárhæðir með svokallaðri samvinnuleið um fjármögnun framkvæmda. Ég vona að við getum náð samstöðu í þinginu um slíka kosti ekki síst vegna þess að ef eitthvað er má segja að í kosningabaráttu og í stjórnarsáttmála spenntum við kannski væntingabogann of hátt. Það er skiljanlegt.

Mjög margar brýnar framkvæmdir og viðhaldsframkvæmdir skipta máli, en ef við horfum ískalt á þróun útgjalda í ríkisfjármálum verðum við að horfa til mun lengri framtíðar ef við ætlum mögulega að komast af stað með mörg af þessum brýnu verkefnum. Um þessa áætlun má fullyrða að hún er í fullu samræmi við áform hæstv. ríkisstjórnar. Hún er í samræmi við ríkisfjármálaáætlun og (Forseti hringir.) hún er að því leyti ábyrg, skynsamleg, fjármögnuð áætlun um uppbyggingu samgangna með skýra framtíðarsýn.