149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[13:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég byrja á að þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir spurningar sínar og hugleiðingar, sem eru stórar og mjög mikilvægar. Eins og ég kom inn á áðan verðum við á komandi misserum í betri færum til að meta eignir ríkissjóðs og gefa pólitíkinni skýrari sýn á það í hvaða rekstri ríkið á að vera og í hvað við eigum að beina fjármunum, þ.e. skýrari og öflugri forgangsröðun.

Af því að hv. þingmaður nefndi bankana þá erum við í pólitíkinni að tala um hvað markaðurinn getur séð um og hvað ríkið ætti að vera að sjá um. Við höfum gengið í gegnum þannig hremmingar að eðlilegt er að við stígum varlega til jarðar þegar kemur að bönkunum. Engu að síður eru allar framkvæmdir í samgöngum mikilvægar, eins og kemur fram í áætluninni og í umræðu, mikilvægar fyrir hagvöxt, fyrir byggð í landinu, fyrir allt atvinnulíf. Þess vegna eigum við að bera þetta saman á þennan hátt og ég er mjög hlynntur því. Ég geri hreinlega ráð fyrir því að við verðum í betri færum, ekki síst í nefndum þingsins, til að skoða málið á þann hátt sem hv. þingmaður setur fram. Ég fagna því að sú hugsun sé þegar til staðar. Þess vegna er þetta góð umræða. Við eigum að stíga það skref að meta mjög skýrt eignir ríkisins í samhengi við útgjöldin og það hvernig við eigum að forgangsraða fjármunum okkar.