149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:30]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hefði hv. þm. Helga Vala Helgadóttir komið aðeins fyrr inn í umræðuna hefði hún kannski ekki spurt þessarar spurningar, það eru nokkrir búnir að spyrja hennar. (HVH: Þú varst ekki að tala þá.) Nei, enda talaði ég ekki gegn þessari samgönguáætlun. Ekki er nóg með að hv. þingmaður hafi ekki verið mætt hér að hlusta á fyrri ræður, hún hlustaði ekki einu sinni á mína ræðu. Ég talaði ekki gegn þessari samgönguáætlun. Ég hrósaði hæstv. samgönguráðherra fyrir góða áætlun byggða á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við fjármálaáætlun. Ég var mjög ánægður.

Það er ekkert vandamál í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann er tiltölulega vandamálalaus þingflokkur og hefur verið lengi, enda alltaf góð stjórn á honum, sem á ekki við um alla þingflokka hér á þingi. Það breytir því ekki, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er mjög umhugað um að hægt sé að ganga lengra án þess að raska fjármálaáætlun með þeim atriðum sem ég nefndi í ræðu minni áðan, þ.e. með hugsanlegum veggjöldum — menn mega ekki gleyma því að ef við setjum á veggjöld fáum við mikinn fjölda af nýjum greiðendum sem við fáum ekki í öðrum sköttum — og samvinnu við einkaaðila. Síðan má hugsanlega selja einhverjar eignir ríkisins og setja andvirðið í enn betri fjárfestingu sem felst í bættum samgöngum. Það er hugsunin. Þó að ég minnist á það í ræðu minni er ég ekki að tala gegn þessari samgönguáætlun. Hún er ágæt. Ég segi þó, eins og í öllum öðrum þingmálum sem ég hef stutt, að ég hefði kannski viljað hafa eitt og eitt atriði framar í röðinni eða aðeins öðruvísi o.s.frv. Það er ekkert nýtt.

En ég styð þessar samgönguáætlanir báðar heils hugar.