149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

þingmannamál á dagskrá og fundur í umhverfis- og samgöngunefnd.

[15:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að gera hér athugasemd við dagskrá þingsins í dag. Það er alveg ljóst að út af fiskeldismálum í upphafi vikunnar gekk dagskrá þingsins þessa vikuna talsvert úr skorðum. Það virðist vera eins og venjulega að þar eru þingmannamálin látin mæta algjörum afgangi og virðast þau þingmannamál sem á dagskrá voru þessa vikuna hafa verið felld út án frekari umræðu. Ég vil andmæla þessu og benda á að hér stefnir í að við ljúkum umræðu um þau mál sem á dagskrá eru í dag nokkuð tímanlega og nægur tími eftir í dag til að taka nokkur þingmannamál á dagskrá. Ég kalla eftir því að það verði gert. Ég hef raunar kallað eftir því við forsætisnefndina að dagskrá dagsins verði endurskoðuð með hliðsjón af þessu og þingmannamálum hleypt á dagskrá, en engin svör fengið um það.

Mér þykir það slæleg nýting á tíma þingsins, þegar við vitum að við verðum afturhlaðin eins og venjulega þegar nær dregur jólum, að við nýtum ekki tímann sem við þó höfum til stefnu í dag.