149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

þingmannamál á dagskrá og fundur í umhverfis- og samgöngunefnd.

[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Rétt eftir tvö í dag barst nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd fundarboð um fund í nefndinni strax að loknum þingfundi til þess, að því er mér sýnist, að afgreiða þau mál sem voru á dagskrá í dag til umsagna. Ég skil eiginlega ekki alveg af hverju liggur á því, af hverju er ekki beðið eftir næsta skipulagða fundi umhverfis- og samgöngunefndar á þriðjudag? Það er ekki mikið sem gerist á þeim tíma og væntanlega munar ekki miklu á þeim nokkru dögum sem eru á milli varðandi umsagnirnar. Ef eitthvað er hefur fólk meiri og betri tíma til að skrifa og skila umsögnum, ef það er tekið til dagskrár á hefðbundnum umhverfis- og samgöngunefndarfundi í staðinn fyrir að búa til skyndifundar eftir þingfund í dag. Þegar það er gert tek ég undir spurningu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um það hvar þingmannamálin eru sem áttu að vera á dagskrá.