149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

þingmannamál á dagskrá og fundur í umhverfis- og samgöngunefnd.

[16:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Vegna orða hv. þingmanns og 1. varaformanns umhverfis- og samgöngunefndar, sem hann viðhafði hér utan pontu, um að það hefði verið samþykkt á fundi nefndarinnar í morgun að hlaupa á lítinn fund eftir umræðu um samgönguáætlun, þá verð ég að vitna í það sem kemur fram hjá ritara nefndarinnar: Eins og samþykkt var á fundi nefndarinnar í morgun verður haldinn stuttur fundur í nefndinni að loknum þingfundi. Það á enn þá eftir að mæla fyrir tveimur málum, það eru þeir nefndarmenn sem eru í umræddri nefnd sem eiga að hlusta á hæstv. samgönguráðherra mæla fyrir þessum málum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður vill að við gerum. Eigum við að hlusta á hæstv. ráðherra kynna málin eða eigum við að hlaupa inn í hliðarherbergi á fund? Maður veltir því fyrir sér hvort verið er að óska eftir því að hæstv. ráðherra mæli hér fyrir tómum sal.