149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[16:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þingmönnum. Það kom alveg skýrt fram og er hér fest á filmu að ekki var samþykki nefndarmanna fyrir því að halda þennan nefndarfund á þingfundartíma, hreint ekki. Í 20. gr. laga um þingsköp stendur að nefndarfundi skuli ekki halda þegar þingfundur stendur yfir.

„Frá þessu má þó víkja ef nefndarmenn samþykkja og forseti hreyfir ekki andmælum.“

Hér sátu nefndarmenn inni, m.a. úr stjórnarmeirihluta, og hlýddu á hæstv. samgönguráðherra kynna mál, eins og okkur ber að gera. Við erum hér í umhverfis- og samgöngunefnd og okkur ber að hlusta á þegar mál sem berast okkur eru kynnt. En því miður virðist svo vera sem fyrsta varaformanni, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, hafi legið svona óskaplega á að hann setti fund þrátt fyrir mótmæli fjölda nefndarmanna. Ég get ekki séð að þessi nefndarfundur, eða meinti nefndarfundur ætti maður kannski að segja, sé löglegur.