149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

um fundarstjórn.

[16:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Mig langar enn að vekja athygli á því að við erum að ljúka störfum hér klukkan rétt liðlega hálffimm á fimmtudegi. Ekki hefur verið orðið við beiðnum um að taka fleiri mál á dagskrá þó að nægur tími sé fyrir hendi. Vert er að hafa í huga að fastanefndir þingsins eru tiltölulega verklitlar í augnablikinu því að tiltölulega fá mál eru komin til þeirra. Mér telst til að tíu stjórnarmál og ein níu þingmannamál sé nú þegar í hinum átta fastanefndum þingsins að meðtöldum a.m.k. þremur málum sem tilheyra fjárlögum. Fyrir nefndunum er því ekki mjög langur verkefnalisti þessa dagana en 54 mál bíða 1. umr., þar af 38 þingmannamál og 16 stjórnarmál.

Ég verð að furða mig á því að tími þingsins sé ekki betur nýttur en svo. Við erum nýskriðin út úr kjördæmaviku. Þetta var stutt þingfundavika vegna þingflokksfunda á mánudag. Ég furðaði mig reyndar nokkuð á því hvað við áttum eiginlega að ræða á þingflokksfundunum á mánudaginn því að ekki var langur verkefnalisti fyrir höndum.

Slíkt sleifarlag í vinnubrögðum veldur mér vonbrigðum. Við hefðum hæglega getað nýtt (Forseti hringir.) daginn miklu betur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)