149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:48]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í kjölfar þess að hér er verið að ræða um íslenskan landbúnað, mikilvægi hans, hreinleika og einstakar aðstæður sem við höfum hér á landi þar sem við búum á eyju og getum varið okkur gagnvart sjúkdómum og öðru slíku ætla ég bara rétt að vona að við förum nú ekki að flytja inn hunda og ketti frjálst á milli landa. Ég vil hvetja okkur öll til að stíga varlega til jarðar í þessum málum. Það er sjálfsagt að skoða hvað hefur virkað vel í öðrum löndum og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þar, en við getum líka alveg byggt á okkar eigin reynslu, niðurstöðum okkar sérfræðinga og okkar fræðimanna sem kunna vel til verka og vara við því að opna of mikið á innflutning, hvort sem er á hráu kjöti eða gæludýrum. Höldum nú í það sem við höfum. Stöndum vörð um það sem er gott hjá okkur. Eflum íslenskan landbúnað en tökum ekki óþarfaáhættu.