149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

störf umboðsmanns Alþingis.

[11:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Umboðsmaður Alþingis skilar skýrslu um störf sín og ábendingar á hverju ári til Alþingis. Í gær var opinn fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem umboðsmaður kynnti skýrslu sína. Í störfum umboðsmanns felst m.a. að fylgjast með því hvernig framkvæmdarvaldið framfylgir þeim lögum sem Alþingi setur í samskiptum sínum við borgarana, einstaklinga og fyrirtæki. Segja má að skýrslan sé vegvísir fyrir Alþingi til að gera úrbætur á lögum og ábending um veika bletti í stjórnsýslunni. En skýrslan er ekki bara góð fyrir Alþingi, hún er líka nauðsynleg lesning fyrir framkvæmdarvaldið, stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og stofnanir þeirra.

Í þessu samhengi vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Í fyrsta lagi: Er það ekki örugglega í verklagsreglum forsætisráðuneytisins og annarra ráðuneyta að yfirfara skýrslu umboðsmanns Alþingis þegar hún kemur út og greina hvar úrbóta er þörf á verksviði hvers ráðuneytis? Ef svo er ekki, mun hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að slíkar verklagsreglur verði settar?

Í öðru lagi: Í skýrslu umboðsmanns og orðum hans kemur fram að oft dregst úr hömlu að svara erindi hans, jafnframt að ef honum gangi svo treglega sjálfum að fá svör hvað mætti þá ætla með svör við erindum borgaranna sjálfra. Því spyr ég: Mun hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að erindum umboðsmanns verði betur sinnt en raun ber vitni?

Loks vil ég spyrja hvort ekki sé tímabært að ráðuneyti og stofnanir verið skikkuð til að koma sér upp kerfi sem upplýsir þá sem reka erindi gagnvart stjórnvöldum um feril máls og stöðu þess í kerfinu og hvenær vænta megi svars. Sömuleiðis að birt verði opinberlega yfirlit, nokkurs konar mælaborð, um fjölda erinda sem eru til afgreiðslu, (Forseti hringir.) afgreiðslutíma og þess háttar. Mun hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir þessu?