149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn er ágætlega kunnugur aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði og þekkir ágætlega til þar vegna sinna fyrri starfa. Hann ræddi aðeins um kjarasamninga og hvernig það hefði ítrekað gerst að samningar á vinnumarkaði hefðu í raun farið langt fram úr þeim væntingum sem við höfðum til hagvaxtar á hverjum tíma. Og þetta er svo sem alveg ágætt og er raunar reifað í skýrslunni og alveg rétt sem þingmaðurinn segir með tilliti til þess. En það er eitt sem þingmaðurinn kom ekki inn á, sem er í skýrslunni varðandi þetta, og það er að nágrannaþjóðir okkar hafa að mörgu leyti farið aðrar leiðir í þessu. Til að mynda er meira að segja sagt í skýrslunni að sumar þeirra hafi hreinlega sett sér tiltekin mörk við það að búið sé að skipta kökunni svona — svona eigi bilið á milli tiltekinna hópa í samfélaginu að vera hvað varðar launasetningu og annað og við hækkum síðan launin í framhaldi af því.

Er þingmaðurinn að tala fyrir því að við gerum eitthvað slíkt á Íslandi, þ.e. að við rekum hreinlega niður hæla í svörðinn og segjum: Hér eiga laun verkamanna að vera og margfeldi af þeim eiga laun annarra stétta að vera og þar ætlum við að halda okkur? Er þingmaðurinn að tala fyrir þessu?