149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

birting upplýsinga.

[13:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er einmitt fjármálaráðherra sem talar um gífuryrði og ég hvet hann til að koma með nákvæmari útlistun á þeim gífuryrðum sem hann vísar í til að hægt sé að taka málefnalega beint á þeim í staðinn fyrir að vísa bara í einhver gífuryrði. Ég myndi alla vega vilja nákvæmari lýsingu þar á.

En að öðru leyti tek ég hjartanlega undir það.

Við höfum mörg dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir því að takmörkun á tjáningarfrelsi, þar með talið upplýsingafrelsi, verður að teljast nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Það er einnig mjög skýrt af dómafordæmum Mannréttindadómstólsins að takmörkun á upplýsingafrelsinu í aðdraganda kosninga krefst mjög mikillar réttlætingar.

Að takmarka upplýsingar í aðdraganda kosninga, vegna þess að kosningar eru í nánd, eru augljóslega mjög ólýðræðislegar ástæður. Í ljósi þessara sjónarmiða og þess sem ráðherra sagði áðan og á grundvelli 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, myndi ráðherra, miðað við viðurkenningu hans á mistökum sínum áðan, ef hann fengi aftur tækifæri til, birta skýrsluna fyrir kosningar?