149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda því fram að þessu mótmæli enginn. Það sem fólk mótmælir er þegar þingmenn, topparnir, gangast ekki undir þessi lögmál og fá miklu hærri prósentur. Þá koma hinir að sjálfsögðu og segja: Fyrirgefið, af hverju er verið að setja þetta lögmál á okkur en ekki ykkur? Þar er ósanngirnin. Þar liggur hundurinn grafinn.

Við skulum fara varlega í þessa umræðu þegar við erum undir tveggja ára kjararáðsdómi þar sem farið var tiltölulega glannalega í hækkanir á launum okkar. Enginn flokkur á Alþingi nema einn, flokkurinn sem ég er í, vildi breyta þeirri ákvörðun. Taki þeir það til sín sem bera ábyrgð á því.

Aðeins að hvatanum til yfirvinnu. Það er alveg rétt líka að hvatinn til að vinna yfirvinnu er dálítið mikill. Fólk fær mikið fyrir yfirvinnuna. Hins vegar ætti líka að vera hvati fyrir atvinnurekendur að útvega ekki yfirvinnuna því að þeir klukkutímar eru dýrir. Einhverra hluta vegna virkar sá hvati ekki svo vel og maður gæti ímyndað sér að þegar yfirvinnuálagið yrði lægra sækti fólk síður í yfirvinnuna. En einmitt af því að dagvinnutaxtinn er lágur þarf fólk þess samt. Þetta er aftur dálítið hænan/eggið-vandamál sem þarf tvímælalaust að taka á og ég held að það sé mjög hjálpleg athugasemd inn í umræðuna.