149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til þess að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi en staðan er þó ekki jöfn. Var m.a. heill dagur í gær tileinkaður baráttunni fyrir jöfnum kjörum karla og kvenna og bent á það óréttlæti sem er fólgið í því að karlar og konur fái ekki sömu laun. Dagurinn var einnig notaðir til að vekja athygli á ýmsum öðrum atriðum þar sem staða kynjanna er ekki jöfn. Í því samhengi var #metoo-byltingin rifjuð upp og bent á að því miður sæta konur ofbeldi í samfélaginu.

Í mínum huga er frumvarpið sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum sem gerir að verkum að viðurlög verði við því að fylgja ekki samþykktum lögum um hlutfall kynja í stjórn, enn eitt verkfærið sem við sem samfélag getum beitt í þeim tilgangi að jafna stöðu karla og kvenna í samfélaginu. Þó svo að ég sé ekki einn af flutningsmönnum frumvarpsins styð ég það og markmið þess svo sannarlega heils hugar.

Mér finnst mjög áhugavert sem kemur fram í greinargerðinni um að í gildi séu lög sem hefur ekki verið fylgt, en lögin kveða á um að í stjórnum fyrirtækja skuli hlutur hvors kyns vera að lágmarki 40% ef fyrirtækin eru það stór að í þeim starfi 50 manns og ef fyrirtækin eru lítil þar sem einungis eru þrír stjórnarmenn sé a.m.k. einn einstaklingur af hvoru kyni.

Það hefur orðið bakslag á síðustu árum þar sem konum í stjórnum fyrirtækja hefur farið fækkandi frá því að ákveðnum toppi var náð, sem var þó aðeins 33,2%, árið 2014.

Ég tel að við þurfum sem löggjafi og sem samfélag að beita mörgum og fjölbreytilegum aðferðum til þess að jafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Ég held að ekki sé til nein ein leið sem bjargar öllu eða breytir öllu heldur þurfi að grípa til aðgerða á mörgum sviðum.

Ég tel að þetta sé ein leið sem við eigum að skoða og fara. Líkt og kemur fram í greinargerðinni hefur sú leið gagnast vel í Noregi. Ég held að engin ástæða sé til að halda að eitthvað annað gildi um íslenskt samfélag og vona þess vegna að frumvarpið hljóti brautargengi, jafnrétti í íslensku samfélagi til hagsbóta.