149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

innleiðing þriðja orkupakka ESB.

[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki af hverju ég ætti að koma og svara þessu því að hv. þingmaður er með sérstakar pantanir á því hvernig svörin eiga að vera. Það hefði kannski verið nær að hv. þingmaður sendi mér það sem ég á að segja hér. Hv. þingmaður vísaði til þess að við séum oft sein til. Þegar ég settist í stól utanríkisráðherra hóf ég vinnu að því að gæta hagsmuna okkar gagnvart EES vegna þess að full þörf var á. Síðan hef ég verið að vinna að því.

Eins og hv. þingmaður veit voru þau verkfæri sem við vorum með að stórum hluta tekin burtu þegar gengið var í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Af hverju hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti það kerfi ekki aftur af stað þegar hann tók við sem forsætisráðherra er mér hulin ráðgáta, vegna þess að þetta mál og önnur sambærileg sem snúa að tveggja stoða málum og öðru slíku sem rætt er voru ekki að koma upp núna. Það er í þessari ríkisstjórn sem þetta fyrirkomulag hefur verið að stórum hluta sett upp aftur og verður sett upp að fullu þegar fram líða stundir.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við skoðum ekki bara það sem snýr að þessari innleiðingu heldur önnur þau mál þar sem við eigum að gæta hagsmuna okkar vel og vandlega. Af því að hv. þingmaður nefndi að stundum værum við sein til er það mín skoðun að við hefðum átt að hefja þá vinnu fyrir löngu eða um leið og við tókum þá ákvörðun að stöðva þá feigðarför að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég áskil mér allan rétt til að vinna að þessum málum með hæfustu sérfræðingum og öðrum þeim sem snúa að hagsmunum okkar í EES-samstarfinu því að ég þarf ekki að útskýra fyrir virðulegum forseta eða hv. þingmanni að það er afskaplega mikilvægt og hefði betur verið farið af stað fyrr.