149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð sérstakt að taka þátt í umræðum um öryggismál við utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins sem situr í embætti á grundvelli samkomulags um ríkisstjórnarþátttöku þar sem orðið NATO er ekki að finna. Það er ekki nefnt í stjórnarsáttmálanum. Ég hygg að við verðum að spyrja ráðherra hvort hann hafi ekki orðið fyrir kárínum út af því í alþjóðlegu samstarfi að orðið NATO skuli ekki vera í þessum stjórnarsáttmála. En eftir 2006 varð hér nokkurt tómarúm í öryggismálum sem menn hafa keppst um að fylla með því að kafbátaumferð í nágrenni við landið hefur stóraukist. Við því hefur verið brugðist, sem betur fer, með aukinni loftrýmisgæslu og með því að hér séu að staðaldri kafbátaleitarvélar af nýjustu gæðum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi umsvif kalli ekki á meiri öryggisgæslu. Nú er vitað að óvíða í heiminum er betra að þjálfa þyrluflugmenn en hér á Íslandi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að koma hér upp að nýju þyrlusveit, sem væri til að auka öryggi þeirra sem eiga ferð um og í kringum landið og væri auk þess til þess fallin að aðstoða okkar samverkamenn — sem ég vona að séu samverkamenn þó þeir séu ekki nefndir í stjórnarsáttmálanum — við að þjálfa upp þyrluflugmenn. Þetta væri nú gott að fá að heyra, vegna þess að hér er visst tómarúm eftir að bandaríski herinn yfirgaf Miðnesheiði árið 2006.