149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Á meðaldegi virðast þúsundir manna vera fastir á ýmsum stöðum í kerfinu. Kerfið stelur tíma af fólki, bæði í nútíð og framtíð, og djúpt í iðrum kerfisins er að finna byggingar, farartæki, áætlanir og drauma sem öll sitja pikkföst. Hvert sem maður fer segir fólk harmsögur innan úr kerfinu, af sögulegri hetjudáð þeirra sem brutust út úr því og sögur um fólk sem ekki hefur sést til síðan það fór til að fylla út eyðublað fyrir einhverjum vikum. Stundum heyrist hvíslað á kaffistofum landsins að einhver hafi fundið leið út úr kerfinu eða í kringum það, en slíkt má ekki segja upphátt, kerfið gæti heyrt til.

En þetta blessaða kerfi er ekki til. Tilgangurinn með því að mála það upp sem ófreskju úr iðrum helvítis, að persónugera það sem illmenni og gera það að sökudólgi, er til að draga athygli okkar frá því að öll illvirki kerfisins eru raunverulega unnin af fólki. Já, það er til fólk sem fer með völd. Og á grundvelli þeirra valda tekur það ákvarðanir, eða sleppir því eftir atvikum. Það er þaðan sem öll illska kerfisins kemur.

Nú eru samt ekki margir sem ætla sér í illsku sinni að klófesta þúsundir manna innan kerfisins með ákvörðunum sínum eða ákvarðanaleysi. Oftast stafa þessi vandamáli af nokkrum mjög mannlegum skýringum, svo sem skorti vitneskju, skrýtinni röð aðgerða, óskýrri ábyrgðarkeðju eða skorti á heimildum til að leysa vandamálin. Ákvarðanatökuskortur er landlæg pest á Íslandi. Að hluta til er hann afleiðing menningar þar sem lítið er hrósað fyrir það sem vel er gert, mikið skammað fyrir jafnvel minni háttar mistök og tortryggni varpar skugga á jafnvel saklausustu ákvarðanir þar sem allir vita að kerfið er alltaf að svindla á þeim.

Reynum að vera góð hvert við annað og finnum lausnir, jafnvel þótt þær rúmist ekki innan kerfisins.