149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að tala aðeins um heilbrigðisþing. Það var haldið síðastliðinn föstudag, býsna vel sótt þing af afar breiðum hópi heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem sýndu málinu áhuga. Þarna fóru fram afar góðar og skemmtilegar umræður. Fyrirkomulag þingsins var þannig að manni sýndist að fundarmönnum gæfist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, sem var vel. Það var líka gleðilegt að þarna voru allmargir þingmenn, m.a. úr velferðarnefnd, og vonandi mun ómurinn af þinginu að einhverju leyti berast hingað inn.

Þetta heilbrigðisþing er væntanlega góður upptaktur fyrir þá framhaldsvinnu sem á eftir að verða í sambandi við mótun heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Eins og ég hef áður komið inn á í þingræðum er býsna mikilvægt að vita hvert við erum að fara og hvað við ætlum okkur með heilbrigðiskerfið okkar.

Það komu fram nokkrar afar mikilvægar athugasemdir á þinginu, m.a. um endurhæfingarmál, öldrunarþjónustu, um skipulag sérfræðilækninga og aðra þætti einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu sem ég treysti að bæði ráðuneyti heilbrigðismála og aðrir sem um þetta véla muni koma í framkvæmd. Allt er þetta mjög mikilvægt vegna þess að íslenska heilbrigðiskerfið hefur alla burði til að vera í fremstu röð með þeirri þekkingu sem er til staðar og þeirri uppbyggingu sem nú er í gangi.

Við sem hér erum getum með stuðningi við sterkara heilbrigðiskerfi, með stuðningi við sterkari innviði og með stuðningi við þá mikilvægu staðreynd, skulum við segja, að heilbrigðisþjónustan sé sjálfsögð mannréttindi, tryggt að við verðum áfram í fremstu röð.