149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt laugardags strandaði flutningaskip við hafnargarðinn í Helguvík. Mannbjörg varð og þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði allri áhöfn og hafnleiðsögumanni. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim björgunaraðilum sem komu að björguninni í Helguvík. Þetta sýnir okkur enn og aftur hversu björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar eru okkur mikilvægar og þær frábæru áhafnir sem á þeim eru.

Ég vil einnig þakka björgunarsveitarfólki um land allt sem sinnir mikilvægum björgunarstörfum í sjálfboðavinnu.

Málið í Helguvík hefði getað farið á mun verri veg. Skipið hefði getað lokað innsiglingunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, en eins og kunnugt er þá er Helguvík olíubirgðahöfn og m.a. geymir eldsneyti fyrir Keflavíkurflugvöll.

Nú að loknum farsælum björgunarstörfum þarf að huga að mengunarmálum og er sú vinna þegar hafin. Helguvík er ein af svokölluðum sex neyðarhöfnum á landinu. Tilgangur neyðarhafnanna á að vera að fyrirbyggja slys og mengun á sjó og draga úr áhrifum þeirra á umhverfi sjávar og stranda, efnahagslífsins og heilbrigði íbúa. Byggir þetta á störfum starfshóps sem útfærði neyðaráætlun vegna bráðamengunar utan hafna. Þessi áætlun gerir ráð fyrir að Umhverfisstofnun komi sér upp mengunarvarnabúnaði og flytji hann á staðinn þar sem slys verður. Þannig er fyrirkomulagið.

Herra forseti. Ég tel þetta fyrirkomulag vera óheppilegt og ekki nógu skilvirkt þar sem neyðarhafnirnar eru um allt land. Veðurskilyrði geta hamlað því að búnaður geti komist á slysstað sem fyrst. Mengunarvarnabúnaður ætti ávallt að vera til staðar í þessum sex höfnum. Nauðsynlegt er að ríkið leggi til fjármagn til að koma upp búnaði og þjálfa starfsfólk neyðarhafna til viðbragðs við slysum og hættum. Um þetta ályktaði m.a. hafnarþing nýverið. Neyðaráætlunina frá 2015 tel ég einnig nauðsynlegt að yfirfara í ljósi þessa atburðar.