149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

þingsköp Alþingis.

23. mál
[19:43]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir svarið. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um að sýnt sé frumkvæði með málinu og það sé fordæmalaust. Þingmaðurinn talar líka um að þá heyrist fleiri raddir á þinginu og við höfum það opnara. Sumir segja að endurnýjun hafi verið of hröð og of mikil á þingi og þar séu sífellt ný andlit og fólk nái ekki þekkja þingmennina. Það er kannski önnur umræða.

En er þingmaðurinn viss um að þetta sé sterkasta leiðin til að gera starfið opnara og aðgengilegra? Hvað sér hann fyrir sér að fólk fái að gera annað en að koma í salinn, stíga upp í ræðustól og hafa tvær mínútur til að ávarpa þingheim um málefni líðandi stundar? Hver eru málefni líðandi stundar? Eigum við að afmarka það? Hvernig eigum við að skoða það? Er það bara opið?

Þingmaðurinn talar um að fólk geti komið og talað þess vegna um uppskriftir. Er ekki til einhver annar vettvangur en ræðustóll Alþingis til að ræða það? Þurfum við að koma með það hingað inn? Eða ætlum við að hafa þetta allt galopið? Hvað fáum við út úr því? Hvað bætum við? Erum við að efla virðingu þingsins? Erum við að auka gegnsæið og auka skilning fólks á starfinu? Ætlum við þá í hvert skipti sem einstaklingur kemur hingað að leiða hann í gegn og opna fyrir honum allt starfið og sýna hvað við erum að gera?

Það hafa verið uppi hugmyndir um að leyfa einhverjum að fylgja þingmanni heilan dag eða fleiri, bara til að þeir átti sig á umfangi starfsins sem er mörgum hulið. Fólk áttar sig ekki á því og telur að starfið fari allt fram í þessum sal og úr ræðustól. Svo er ekki, það vitum við. Það væri gaman að fá svör við því.