149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Norrænt samstarf er okkur Íslendingum afar mikilvægt og gagnlegt. Við þurfum að sinna því eins vel og við getum. Það er rík hefð fyrir norrænu samstarfi á ýmsum sviðum í atvinnulífinu, verkalýðsfélögum og öðrum félagasamtökum, ekki síður en hjá sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Ráðherrar landanna hittast reglulega. Það gera þingmenn einnig á vegum Norðurlandaráðs. Skipst er á skoðunum og reynslu af umbótum á ýmsum sviðum og samnorrænum gildum einnig aflað stuðnings á alþjóðavettvangi.

Norðurlandaráð er lýðræðislegur vettvangur fyrir norrænt samstarf, eins konar hugmyndasmiðja fyrir samstarfsverkefni. Nýafstaðið þing Norðurlandaráðs í Ósló heppnaðist afskaplega vel og Íslandsdeildin kemur vel nestuð heim af góðum hugmyndum, byggðum á norrænum gildum. Á heimasíðu Norðurlandaráðs eru upplýsingar um allt þetta og ég hvet hv. þingmenn til að nýta sér þær hugmyndir í störfum sínum.

Það eru óróatímar á alþjóðavettvangi og því er mikilvægara nú en áður að Norðurlöndin snúi bökum saman og verji þann árangur sem náðst hefur í vinnu gegn því sem ógnar norrænum gildum. Norðurlöndin hafa t.d. náð ágætum árangri í jafnréttismálum þó að enn sé langt í land að jafnrétti kynjanna sé náð. Nú lítur út fyrir versnandi stöðu kvenna samfara breytingu á hinu pólitíska sviði í Bandaríkjunum, víða í Evrópu og einnig á Norðurlöndum, t.d. þegar kemur að sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Norrænu ríkin þurfa að verja þá stöðu sem náðst hefur og sækja fram.

Hæstv. forsætisráðherra Íslands nefndi á þingi Norðurlandaráðs í Ósló annað verkefni sem Norðurlönd ættu að sameinast um, en það eru aðgerðir gegn skattsvikum og skattaskjólum. Slíkt vegi ekki aðeins að velferðinni heldur einnig að lýðræðinu, því að fólk sem kæmi sér undan skattgreiðslum væri að skipa sér í lið utan samfélagsins. Ég tek heils hugar undir með hæstv. forsætisráðherra hvað þetta varðar og ég hvet hana til að taka afgerandi forystu í málinu fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands á norrænum vettvangi.