149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni sem felur í sér að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi þar stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands. Hópurinn tæki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði.

Á Norðurlöndunum eru lýðháskólar mikilvægur hluti af menntakerfinu og eiga sér langa sögu. Íslendingar hafa margir farið út í skóla í gegnum áratugina og gera enn. Rannsóknir um starfsemi og árangur í lýðháskóla sýna ótvíræðan árangur þeirra, bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Þeir eru lífsleikniskólar þar sem nemendur geta valið sér nám úr fjölda ólíkra námsgreina sem eru oft tengdar samfélaginu með nánum hætti.

Í lýðháskólum eru ekki próf heldur áherslan lögð á þátttöku í skapandi greinum, tengda listum, samfélagi og atvinnulífinu. Það eru mörg gild rök fyrir því að starfsemi lýðháskóla vanti inn í íslenskt menntakerfi. Þessar stofnanir hafa verið við lýði í meira en 100 ár á Norðurlöndunum og rannsóknir hafa sýnt fram á arðsemi bæði í fjárhagslegum, félagslegum og menningarlegum skilningi. Því er mikill ávinningur að styðja við uppbyggingu þessara skóla í íslensku menntakerfi. Lýðháskólar á Íslandi geta orðið öflugt svar við sumum af þessum áskorunum sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir en verða einnig mikilvægar stofnanir í staðbundnu samhengi og á landsvísu. Hér á landi eru þeir að stíga sín fyrstu skref eins og kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar.

LungA, skóli sem stofnaður var árið 2013, er lýðháskóli sem er starfræktur á Seyðisfirði og rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum auk skólagjalda. Þar er lögð áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu. Mikið og gott starf hefur farið þar fram.

Haustið 2018, núna í haust, hóf Lýðháskólinn á Flateyri starfsemi sína. Þar eru í boði tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig taka við að hámarki 20 nemendum og ég held að þar séu núna 38 eða 39 nemendur.

Önnur námsleiðin byggir á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggir á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemi sína. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í haust að vera við skólasetningu Lýðháskólans á Flateyri og upplifði ég ákveðinn vendipunkt í samfélaginu sem átt hefur undir högg að sækja undanfarinn áratug. Það var líkt og þorpið sem svaf væri að rumska af værum blundi.

Virðulegi forseti. Ekki eru til lög um lýðháskóla hér á landi en gert er ráð fyrir að frumvarp þess efnis, sem á að snúast um lög um lýðskóla, komi frá menntamálaráðuneytinu í mars. Eins og hér hefur komið fram er lagt til að breyta nafninu úr lýðháskóla í lýðskóla sem ég ætla svo sem ekki að leggja mat á hér. Frumvarpið á að fjalla um lagalega stöðu lýðskóla í íslensku skólakerfi, viðurkenningu og ábyrgð á starfsemi þeirra. Er það vel því að ég held að þessi viðbót í flóru menntastofnana hér á landi sé svar við ýmsum þáttum sem við erum að fjalla um. Á morgun verður t.d. sérstök umræða um vandamál ungra drengja og ég held að þetta sé liður sem gæti bætt líðan þeirra og margra annarra.

Ég fór og skoðaði nemendurna, sem eru frá 20 ára og ég held til rúmlega sextugs, í Lýðháskólanum á Flateyri. Breiddin er mikil, bæði í menntun og færni eins og gengur, og má nefna að þarna eru bæði langskólagengnir og háskólamenntaðir nemendur. Ég held að háskólamenntaðir séu tveir. Svo eru þeir sem aldrei hafa farið í framhaldsskóla og nokkrir sem hafa flosnað þaðan upp og hafa átt erfitt með að fóta sig. Breiddin er mikil og styrkurinn þvert yfir er heilmikill.

Virðulegi forseti. Með aðkomu UMFÍ á Laugarvatni myndast tækifæri til að koma að stofnun lýðháskóla og rekstri ungmennabúða og tryggja um leið að ýmis verkefni stöðvist ekki heldur geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Þar má t.d. nefna stuttar ferðir, samkomur og fundi íþrótta- og ungmennafélaga og ekki síst sumarbúðir Íþróttasambands fatlaðra. Eins og fram kom hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur má kannski útfæra þennan þátt nokkuð betur og skoða. Hv. þingmaður kom inn á áhugaverða punkta sem ég held að megi skoða betur í þessu efni sem fer þá inn í nefndarstarfið.

Ég held að þetta sé gott mál sem við megum vera stolt af að flytja hér og ég vona að það nái sem bestum framgangi.