149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattalögum í tengslum við annars vegar skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa og hins vegar skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækja.

Í fyrsta lagi varðandi hlutabréfakaupin ber að nefna tillögur til breytinga á ákvæðum tekjuskattslaga er varða skattafslátt vegna hlutabréfakaupa í formi frádráttar frá tekjuskattsstofni í því skyni að hvetja til frekari nýtingar einstaklinga á þessari skattalegu ívilnun og framlengja gildistíma hennar. Fyrir liggur að umrædd ákvæði í tekjuskattslögunum eru með tímabundið gildisákvæði, þ.e. gildistími ákvæðisins er tímabundinn og rennur út í lok þessa árs ef ekki verður tekin ákvörðun um framlengingu. Hér er einmitt lagt til að gildistíminn verði framlengdur um þrjú ár en að óbreyttu geta einstaklingar einungis nýtt sér frádráttinn vegna fjárfestinga á yfirstandandi ári. Síðasta ívilnunin fer fram við álagningu opinberra gjalda á næsta ári.

Þeim skilyrðum sem einstaklingar og félög þurfa að uppfylla verður jafnframt fækkað og þau einfölduð. Hér er rétt að rifja upp að þegar við komum þessum ákvæðum í tekjuskattslögin á sínum tíma gerðum við það af ákveðinni varfærni. Það átti sér þó nokkuð langan aðdraganda þar sem tekist var á um hvort eitthvað væri verið að klaga upp á ríkisstyrkjareglur á innri markaði EES-svæðisins og hvar mörkin lægju í því efni. Sömuleiðis var rennt dálítið blint í sjóinn með það hversu mikið eða í hvaða mæli úrræðin yrðu nýtt sem hér voru lögfest á þeim tíma. Með vísan til óvissunnar um það var erfitt að leggja nákvæmt mat á þá skattalegu ívilnun sem um er að ræða. Niðurstaðan varð frekar varfærin nálgun. Varfærnin birtist í fyrsta lagi í þeim skilyrðum sem lögfest voru fyrir ívilnuninni og hins vegar í því að ákvæðið var lögfest tímabundið.

Nú er reynslutíminn liðinn. Hér stöndum við og þetta frumvarp kveður á um að við framlengjum og slökum aðeins á þessum skilyrðum. Gert er ráð fyrir því að einstaklingur og félag sem hann hyggst fjárfesta í vegna hlutafjáraukningar þurfi ekki lengur að uppfylla þau skilyrði sem varða annars vegar tengsl einstaklingsins við félagið og hins vegar þau skilyrði sem varða félagið sjálft og starfsemi þess eftir að hlutafjáraukning félagsins hefur átt sér stað. Það að einstaklingur og viðkomandi félag þurfi samkvæmt núgildandi lögum að halda áfram að uppfylla skilyrðin í tiltekinn tíma eftir hlutafjáraukningu félagsins er talið draga úr hvata einstaklinga til að nýta sér frádráttinn.

Þá er jafnframt lagt til að fækka skilyrðum laganna sem lúta að einstaklingi sem hyggst nýta sér frádráttinn með því að fella brott skilyrðið um að hann megi ekki vera starfsmaður félags sem hann hyggst fjárfesta í við hlutafjáraukningu þess. Tillaga þessi ætti að hafa í för með sér jákvæð áhrif á kaup starfsmanna í hlutafélagi sem þeir starfa hjá og um leið hvetja til betri frammistöðu og aukinnar framleiðni hjá viðkomandi fyrirtæki. Þessi breyting einfaldar einnig framkvæmd og eftirlit skattyfirvalda með kerfinu.

Það má kannski segja að það sé í ljósi reynslunnar sem þetta er lagt til, að úrræðin hafi ekki verið nýtt alveg í þeim mæli sem menn vildu sjá. Hér hef ég farið yfir það helsta sem við teljum að komi að gagni til að úrræðið hafi þá virkni sem stefnt var að í upphafi.

Síðan um hitt meginatriði þessa frumvarps: Hér er lagt til að hækkaðar verði núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja sem er að finna í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Annars vegar felur tillagan í sér að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 300 millj. kr. í 600 millj. kr., ef viðkomandi fyrirtæki er eigandi að rannsóknar- og þróunarverkefnum. Hins vegar er lagt til að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar á frádrætti hækki úr 450 millj. kr. í 900 millj. kr. þegar rannsóknar- og þróunarvinna er keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun.

Það er stefna stjórnvalda að auka verulega við stuðning við rannsóknir og tækniþróun fyrirtækja á Íslandi en liður í því er að stefnt skuli að afnámi þaka á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar á kjörtímabilinu. Hækkun viðmiðunarfjárhæða er nauðsynlegt skref í átt að því markmiði.

Núgildandi kerfi skattaívilnana hefur stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun fyrirtækja á undanförnum árum. Má nefna í því samhengi að 142 fyrirtæki sóttu um og fengu endurgreiðslu vegna 360 verkefna á rekstrarárinu 2017. Það er því ljóst að úrræði þetta hefur stuðlað að mikilli grósku í rannsóknum og þróun hjá fjölda fyrirtækja á undanförnum árum. Fjárfesting í nýsköpun, rannsóknum og þróun er undirstaða aukinnar verðmætasköpunar, hagvaxtar og almennra framfara í íslensku samfélagi og því er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram myndarlegum stuðningi á þessu sviði.

Síðast í gær þegar atvinnustefna Samtaka iðnaðarins var kynnt í Hörpu komu fram ljóslifandi dæmi þess að slíkar ívilnanir, þær endurgreiðslur sem felast í þessu frumvarpi og hafa gilt undanfarin ár, hafa skilað auknu umfangi hjá iðnaðarfyrirtækjum í landinu, hafa tryggt störf, hafa gert fyrirtækjum kleift að ráða til sín nýútskrifaða nemendur, eins og kom t.d. fram í máli forstjóra Knox Medical þar sem fyrirtækið hefur hugsað þennan afslátt sérstaklega til að hleypa nýútskrifuðum í rannsóknarverkefni hjá sér. Það hefur aftur leitt til samstarfs við önnur fyrirtæki eða háskólastofnanir í öðrum löndum. Önnur fyrirtæki, eins og Elkem, tóku dæmi á fundinum í gær um að nokkur störf, hálaunuð störf fólks með doktorsgráður sem stundar rannsóknir á vegum Elkem á Íslandi, séu í beinu samhengi við þær endurgreiðslur sem hér er verið að fjalla um. Það sem meira er, þegar horft er til framtíðar eru mörg af þessum iðnaðarfyrirtækjum á Íslandi í alþjóðlegu samstarfi þar sem stöðugt er verið að líta til hagstæðustu rekstrarskilyrða, hagstæðustu almennu rekstrarskilyrða, til að láta næstu rannsóknarverkefni skjóta rótum. Það var gaman að upplifa það bæði frá öflugum, stórum fyrirtækjum eins og Elkem en líka litlum hugbúnaðarfyrirtækjum sem eru kannski með fáa starfsmenn, að þetta regluverk er hreinlega lífæð fyrirtækjanna samkvæmt því sem maður fékk milliliðalaust til sín á fundinum í gær.

Önnur fyrirtæki, eins og Alvotech, sem eru í lyfjaframleiðslu, stunda miklar rannsóknir á Íslandi, þróunarstarf þar sem mörg ár fara í rannsóknir og þróun áður en framleiðslan kemst á skráningarhæft og í framhaldinu markaðshæft stig. Tekjurnar koma þannig mörgum árum eftir að rannsóknirnar og þróunarvinna hafa klárast og alveg augljóst að við þurfum að gæta að því í lagaumhverfi okkar, skattumhverfi okkar, að sýna slíkri starfsemi skilning og búa slíkum fyrirtækjum almennt rekstrarumhverfi, þar með talið í skattalegu tilliti sem stenst samkeppni við önnur lönd.

Í samhengi við samkeppnina við önnur lönd er það einfaldlega staðreynd að öll lönd horfa til þess hvernig þau geta laðað fram fjárfestingu í störfum sem tengjast verðmætasköpun framtíðarinnar. Það regluverk sem við ræðum hér þar sem við ætlum að víkka út gildissvið, hækka þökin, er mjög keimlíkt regluverki annarra þjóða í þessu efni. Sumir hafa gengið svo langt að afnema þökin en það eru alltaf einhverjar sérreglur sem hafa þarf í huga. Við höfum skrifað það í stjórnarsáttmálann og það hefur komið fram í mínu máli að við stefnum að því að geta gert það, en við þurfum að taka hvert skref af ákveðinni varfærni. Það verður t.d. að meta það áður en þakið verður endanlega afnumið, eins og við höfum stefnt að í stjórnarsáttmála, hvort við værum þar að teygja okkur til tiltölulega fárra, stórra aðila sem myndu fyrir breytinguna reka sig í þakið. Með breytingunni værum við þannig að auka endurgreiðslur til stóru aðilanna meðan afnám þaksins snerti ekkert við fjöldanum sem væri undir þakinu. Við þyrftum í raun og veru að taka umræðu um það og velta fyrir okkur hvort við værum mögulega að gera meira gagn með því að auka endurgreiðsluhlutfallið til fjöldans í stað þess að hafa lægra endurgreiðsluhlutfall og hærra þak. Það er samspilið af þessum reglum sem við þurfum að skoða og vanda okkur í hverju skrefi.

Það verður að segjast alveg eins og er að við erum að læra á það hvaða áhrif breytingarnar hafa. Við getum tekið sem dæmi að árið 2018 eru endurgreiðslur á yfirstandandi ári töluvert meiri en við sáum fyrir við fjárlagagerðina undir lok síðasta árs. Ætli við séum ekki að endurgreiða rétt u.þ.b. 1 milljarði meira af tekjum til nýsköpunarfyrirtækja, þeirra sem stunda rannsóknir og þróun, en við sáum fyrir.

Það er líka í því ljósi sem við þurfum að vanda okkur við áætlanagerð og breytingar á reglunum til framtíðar.

Af hálfu fyrirtækjanna, hugbúnaðarfyrirtækja, iðnaðarfyrirtækja og allra þeirra sem horfa til þessara reglna — en eins og ég tók fram áðan sóttu 142 fyrirtæki um endurgreiðslu — er gjarnan bent á að það sé augljós ávinningur fyrir báða aðila af því að hækka endurgreiðsluhlutfallið eða hækka þakið vegna þess að um sé að ræða störf sem ella yrðu til í öðrum hagkerfum. Það er alveg gilt sjónarmið þó að kannski sé ekki hægt að alhæfa um að það eigi við í öllum tilvikum varðandi sérhverja breytingu.

Ég held hins vegar að við getum alveg haldið því fram fullum fetum að við höfum verið á réttri leið. Það er sjálfsögð og eðlileg þróun að halda áfram að styðja við uppbyggingu þessara starfa hér á landi með því að auka við stuðninginn með hækkun þaksins.

Þessar lagabreytingar eru samanlagt taldar hafa lítils háttar neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið. Rýmri reglur um skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa eru taldar kosta ríkissjóð mögulega um 40–50 milljónir árið 2020 vegna tekna ársins 2019. Það er áætlun. Skammtímaáhrif af tvöföldun viðmiðunarfjárhæða skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verða, ef að líkum lætur, meiri ef marka má fyrri reynslu, eins og ég hef rakið.

Sé miðað við þá forsendu að aukningin verði 20% frá áætlun ársins 2019 yrði stuðningur kerfisins í formi endurgreiðslu eða lækkunar á tekjuskatti allt að 4 milljarðar. Hér er sem sagt verið að vísa til þess að það yrði 20% aukning á næsta ári frá áætlun yfirstandandi árs. Það er umtalsverð aukning, 4 milljarða endurgreiðsla vegna rannsóknar- og þróunarverkefna er umtalsverður stuðningur við þessa starfsemi.

Rétt er að taka fram að sá stuðningur er bókfærður sem útgjöld hjá ríkissjóði. Til lengri tíma litið ættu heildaráhrifin af þeim stuðningsaðgerðum sem hér er verið að lýsa að vera jákvæð, enda tilgangur breytinganna að stuðla að fjölgun starfa, auknum kaupmætti, fjölbreyttara atvinnulífi og aukinni hagsæld almennt til framtíðar.

Við trúum því að þessum endurgreiðslum sé vel varið til þess að auka umsvif og draga fram öll þau jákvæðu áhrif sem fylgja og að það muni ekki bara skila sér aftur til ríkissjóðs heldur í fjölbreyttara atvinnulífi og aukinni hagsæld, eins og hér er fram komið.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið hér helstu rök fyrir því að gera þær breytingar sem fylgja þessu frumvarpi og legg til að því verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.