149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt hjá okkur að fikra okkur áfram með þær tilslakanir og ívilnanir eins og við erum að gera. Ég held að við höfum tekið rétt skref fram til þessa. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð úr atvinnulífinu við þeim ívilnunum sem verið hafa í gildi. Það verður álitamál varðandi þökin og endurgreiðsluhlutfallið og rétta samspilið þar á milli, eins og ég rakti áðan. Þeir eru til sem segja að ekkert þak sé augljóslega alltaf til ábata og muni veita Íslandi forskot á önnur lönd. En ég held reyndar að að samspil samkeppnislegra þátta sé dálítið flóknara en það.

Ég vísa til þess að við höfum verið að gera aðrar breytingar sem hafa líka hjálpað hérna, t.d. að veita afslátt af tekjuskatti fyrir sérfræðinga sem flytja til landsins ásamt endurgreiðslur út af rannsóknum og þróun. Það saman verkar mjög vel (Forseti hringir.) og við höfum dæmi um það. Þannig að þetta með gildistímann er (Forseti hringir.) álitamál, hvort við séum ekki komin með nægan grunn (Forseti hringir.) til að hafa kerfið varanlegt.