149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[15:16]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrsta flutningsmanni okkar, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir þessa tillögu, sem komin er aftur fram. Í mínum huga eftir umræðuna í dag eru það fyrst og fremst öryggissjónarmið sem mér finnst við þurfa að standa svolítinn vörð um og huga að. Ég er nokkuð viss um að það endar með því að Alexandersflugvöllur verður varaflugvöllur, ef rétt er, eins og fram kom áðan í máli hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, að verið sé að auka öll gæðaviðmið og vottaðar reglur frá ESA. Það er eins gott að við höldum svolítið fast utan um þetta mál og sjáum til þess að það komist áfram.

Ég get vel tekið undir það sjónarmið sem kom einnig fram að við þurfum hugsanlega að hnika eitthvað til viðmiði um skil frá ráðherra og það komi aftur til þings í apríl, maí í staðinn fyrir janúarbyrjun á næsta ári.

Mér finnst mikilvægt að við höldum þessu áfram því að þessi flugvöllur, ég verð að viðurkenna það, verandi Akureyringur, liggur býsna vel landfræðilega. Ég verð að viðurkenna að það er bara satt, þess vegna verðum við að halda þessu áfram.

Hitt er annað mál að nú er talað mikið um að flugsamgöngur verði skilgreindar sem almenningssamgöngur. Ég hef verið að hugsa um hvort það sé kominn tími til að taka þetta skref svolítið lengra, taka það inn í umræðuna hvort rétt sé að huga að því að draga úr niðurgreiðslu samgangna á landi, sem mér skilst að séu umtalsverðar fjárhæðir, og skoða þá átt, burt séð frá öllum skoskum, belgískum og svissneskum leiðum, hvort það sé hreinlega hægt að nota það á hvern einasta flugmiða, greiða þá niður. Þá gæti maður hugsað sér að einhver radíus út frá einhverjum punkti skipti þar mestu máli.

Ég held að við eigum að halda fast í okkar tillögu og ég vona sannarlega að hún fái brautargengi.