149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi.

41. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi. Ásamt mér flytja tillöguna hv. þingmenn Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson. Tillagan var áður flutt á 148. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því hér endurflutt.

Samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara skal jafna flutningskostnað á olíuvörum eins og nánar er kveðið á um. Markmið laganna er að tryggja að eldsneytisverð sé hið sama um allt land til að jafna búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Jöfnun á flutningskostnaði á hins vegar ekki við um eldsneyti sem er ætlað til útflutnings og fellur þar undir eldsneyti til millilandaflugs og því er eldsneytið dýrara á millilandaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík.

Með tillögu þessari er lagt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, undirbúi lagafrumvarp í þá veru að breyting verði á til að verð á eldsneyti í millilandaflugi lækki. Slík breyting myndi styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og ýta undir dreifingu ferðamanna um land allt. Að lokinni umræðu hér legg ég til að tillagan fari til atvinnuveganefndar.