149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að gefa okkur kost á að ræða þetta málefni hér. Við ræðum álit starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum frá því í lok ágúst sl. Markmið starfshópsins sneri að því að nauðsynlegt væri að tryggja efnahagsleg tengsl þeirra sem eiga bújarðir við Ísland, að tryggja tengsl eignarhalds á bújörðum við hlutaðeigandi byggðarlög og að bújarðir væru nýttar til landbúnaðar, þ.e. til matvælaframleiðslu.

Hvert er vandamálið? Eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á er það sú staðreynd að alþjóðlegir auðjöfrar sem sitja með fúlgur fjár eru að kaupa stórar landspildur á íslenskan mælikvarða, þeir gera það og það veldur þeim engum svefnrofum þótt þeir kaupi hér upp heilu dalina eða sveitirnar.

Spyrja má: Hvernig stöndum við að því að beita skynsamlegum takmörkunum á eignarráðum jarð- eða fasteignareigenda? Hvað er það sem skiptir máli í þessu? Að mínu mati er það þrennt, stærð þess lands eða svæðis sem verið er að selja, að koma takmörkun á söfnun svæða og einnig að mikilvæg hlunnindi, t.d. veiði eða önnur landbúnaðarnot, fari ekki í hendur eins eða fárra aðila í stórum stíl og svo að lönd sem eru mikilvæg fyrir landbúnaðarnot fari ekki úr þeim notum, hugsanlega í eyði og í eigu þessara jarðasafnara.

Ég bendi á leiðina sem Danir og Norðmenn fara og ég lýsi yfir undrun minni að við séum ekki þegar búin að taka upp sambærilegar reglur og eru í Danmörku og Noregi þar sem fasteignakaup eru takmörkuð, (Forseti hringir.) bæði varðandi búsetu og stærðartakmarkanir.