149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er mjög mikilvægt einmitt að ræða tekjustofna ríkisins og hvernig menn ætla að hugsa þetta til lengri framtíðar. Ég er ekki kominn með neina patentlausn á því, horft til lengri tíma. Það hefur alltaf verið mín hugmyndafræði að við verðum að passa að skemma ekki fjöreggið, rekstur og annað og vilja fólks til að vinna fyrir sínu sjálfsaflafé og heldur ekki að skattleggja fyrirtæki þannig að það dragi úr styrk.

Við sjáum náttúrlega virðisaukann með tilkomu ferðaþjónustunnar. Það er kannski það áhugaverðasta, þess vegna er ég að tala um að það væri mjög áhugavert að rannsaka þetta aðeins betur hvernig þetta nákvæmlega verður til inni í kerfunum sem snúa að þessu, hvað það er sem er tekjuaflandi fyrir ríkissjóð. Við sjáum bara, maður man töluna, að þetta hefur hækkað alveg gríðarlega á örfáum árum, sem hefur verið skýrt fyrst og fremst með meiri velmegun landsmanna og síðan með mikilli fjölgun erlendra ferðamanna.

Varðandi ráðuneytin og sundurliðun upplýsinga þá er ég bara hjartanlega sammála. Þetta getur oft verið ansi mikið torf að ná utan um. Það vakna almennt mjög margar spurningar þegar maður fer í gegnum gögnin. Ég hef talað fyrir því líka að þetta þurfi að vera gert með þeim hætti að almenningur skilji hvað er verið að fara. Myndræn framsetning er það sem ég tel alltaf vera best í svona. Þú getur séð mynd og áttað þig á á 5–10 sekúndum hvernig landið liggur. Ég efast um að það séu margir tilbúnir að lesa margar síður um tiltekið málefni, en þetta er það sem ég vildi sjá, betri sundurliðun og framsett með miklu betri myndrænum hætti en hefur verið fram að þessu.