149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:40]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanninum kærlega fyrir svarið. En svo ég fái það á hreint, því að spurningin sneri kannski ekki beint að flugtækninni, heldur rekstrarumhverfinu og líkum á því að hér verði öflugir flugvellir um allt land, stórir flugvellir sem geti tekið við alþjóðlegri umferð. Ég held t.d. að þeir sem eru að koma til landsins til að fara í hringferð þurfi ekkert að stoppa í Reykjavík og það er ekkert endilega víst að höfuðborgin sækist sérstaklega eftir þeirri umferð eins og staðan er orðin. Það gætu margir aðrir tekið þá umferð. Ég er að fiska eftir því hjá hv. þingmanni hvort hann telji að það myndi ganga verr að byggja upp slíkt net flugvalla ef t.d. einn eða tveir þessara flugvalla yrðu reknir sem sjálfstætt félag.