149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil segja að hækkanir af slíku tagi skipta almenning miklu máli og sérstaklega þá sem hafa lítið á milli handanna. Hv. þingmaður kom inn á að almenningur ætti að greiða þann kostnað sem fylgir því að veita ákveðna þjónustu eða gefa út leyfisbréf o.s.frv., en við höfum ekki fengið neina almennilega greiningu á því hver sá raunkostnaður er. Hv. þingmaður nefndi að búið væri að gera einhverja athugun á kostnaði við útgáfu vegabréfa en það er einungis eitt atriði af mörgum í því. Það er ekki rétt nálgun hjá hv. þingmanni að leggja þetta svona upp vegna þess að ekki liggur fyrir í mörgum tilvikum í frumvarpinu, í mörgum liðum, hver hinn raunverulegi kostnaður er. Ég er alveg handviss um að þessar hækkanir eru margfalt á við raunkostnað í ákveðnum liðum.

Hv. þingmaður kom einnig inn á að hækkanir hafa ekki verið gerðar síðastliðin átta ár. Það er gott og vel. En þá spyr maður sjálfan sig: Var þetta þá akkúrat rétti tímapunkturinn til að taka á því máli inn í komandi kjaraviðræður sem verða mjög erfiðar, eins og ég nefndi áðan? Ég sé fyrir mér að stjórnvöld ættu að íhuga vandlega hvort þetta hafi ekki verið afspyrnuslæmt útspil inn í komandi kjaraviðræður.