149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[15:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna þessu þingmáli og þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þetta er mjög mikilvægt. Mér finnst allt of lítið talað um og of lítið tekið á fólki sem er á leigumarkaði og aðstoð til þess hóps sem er á leigumarkaði. Það er voða mikið verið að hjálpa fólki við að kaupa húsnæði, sem er gott og vel, en það er samt stór hópur fólks sem er á leigumarkaði, sérstaklega ungt fólk sem á erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið. Við sjáum þetta vandamál þar sem ungt fólk er lengur heima hjá foreldrum sínum og á erfitt með að fóta sig á leigumarkaði. Það er til bóta ef við getum aðstoðað það fólk. Ég hef sjálf verið á leigumarkaðnum alla mína ævi. Ég hef aldrei keypt mér og hef oft verið að skoða einmitt mikið af stóru húsnæði, til að leigja saman með öðrum. Þetta væri mikil bót og hjálp.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort einhver hætta sé á því, ef þetta yrði gert, að þeir aðilar sem væru þá að leigja mörgum myndu bara hækka húsaleiguna í staðinn, vitandi af því að nú fengi hver og einn bætur. Mig langar til að spyrja hvort það væri mögulega þörf á því að koma í veg fyrir það á einhvern hátt eða hvort það sé yfir höfuð hægt. Hvort hv. þingmaður hafi hugsað það á einhvern hátt. Það er líka mikilvægt að koma í veg fyrir það.