149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[15:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, sem eru reyndar tiltölulega ný lög, frá árinu 2016. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir að leggja þetta mál hér fram og fyrir hennar ræðu áðan. Það upplýsist að ég er sú sem spurði hv. þingmann áðan: „Af hverju ekki bara allir?“

Mér finnst margt mjög áhugavert í þessu máli. Ég verð að viðurkenna að ég er ein af þeim sem finnast flókin lög alltaf leiðinleg og mér finnst þessi lög mjög flókin. Það er t.d. þannig að í c-lið 9. gr. þessara ágætu laga, um skilyrði húsnæðisbóta, er það skilyrði að um sé að ræða, með leyfi forseta, „íbúðarhúsnæði hér á landi sem felur í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki er eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu, sbr. þó 11. gr.“

Hv. þingmaður kom aðeins inn á 11. gr. áðan, sem er um undanþágu frá skilyrðum um íbúðarhúsnæði. Það er sem sagt sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum, út frá lögum um málefni fatlaðs fólks; sambýli einstaklinga á áfangaheimilum og svo sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum.

Ég velti fyrir mér hvort við ættum hreinlega að taka bara út þetta „sér“ í c-lið 9. gr., þannig að við værum raunverulega að tala um fullnægjandi heimilisaðstöðu. Ekki að mér finnist svo sem að ríkið eigi að velta því mikið fyrir sér. En jú, það þarf kannski að huga að því. Það sé þá að lágmarki eitt svefnherbergi ásamt eldhúsi, eldunaraðstöðu, snyrtingu og baðaðstöðu.

Að þessu sögðu þá hlakka ég engu að síður til að fá umsagnir um málið. Eins og ég sagði áðan finnst mér flókin lög leiðinleg en svo þegar maður fer að rýna málin eru þau náttúrlega yfirleitt aðeins flóknari en þau líta út fyrir í upphafi. Ég hlakka því mikið til að fá umsagnir um þetta mál og skil alveg nálgun flutningsmanna, að vilja einblína á þennan ákveðna málaflokk, sem eru málefni fatlaðs fólks og réttur námsmanna. En ég vona og vænti þess að það beri á góma í hv. velferðarnefnd, þegar tekið er á móti gestum sem þekkja þennan málaflokk betur en ég, hvort það væri hægt að taka hreinlega þetta ákvæði út. Þegar ég segi þetta ákvæði þá er ég að tala um séreldhús, séreldunaraðstöu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu.

Mig langar líka í þessu tilfelli að nefna, því að það segir í ákvæðinu að um sé að ræða íbúðarhúsnæði, að ég þekki það út frá því að hafa starfað lengi að skipulagsmálum að það var á ákveðnum tímapunkti, ég þekki ekki hvort það sé búið að breyta því, mjög einfalt að fá húsnæði skráð sem íbúðarhúsnæði einmitt ef uppfyllt voru þessi skilyrði. Það var í rauninni bara vaskur, klósett, eldavél.

Nú er ég yfirleitt talsmaður frelsis og að fólk fái að búa hvar sem er. En það er samt ákveðin ástæða fyrir því að sveitarfélögin hafa skipulagsvaldið og hafa aðstöðu til að skipuleggja athafnasvæði sérstaklega, vilja t.d. hafa verslanir eða þjónustu á neðstu hæðum og þess háttar. En þarna var skipulagsvaldið svolítið tekið af sveitarfélögunum því að þó að sveitarfélögin hefðu ákveðið í sínu skipulagi að þarna ætti að vera atvinnusvæði gátu aðilar fari þarna inn, breytt húsnæði, fengið til sín einhverja ágæta nefnd sem kom og tók þessa þætti út og þá þurfti viðkomandi byggingarfulltrúi einfaldlega skrá þetta sem íbúðarhúsnæði. Þetta er kannski smáútúrdúr en mér finnst samt mikilvægt að halda þessu til haga.

Þá langar mig að koma að því sem hv. þm. Halldóra Mogensen nefndi áðan í andsvari: Skila húsnæðisbætur sér raunverulega þangað sem þær eiga að skila sér? Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að ræða. Ég er tilbúin, og ég hygg að við séum það flest hér inni, til að aðstoða þá sem raunverulega þurfa á hjálpinni að halda en það er alltaf hætta á því þegar við byggjum upp svona kerfi að hjálpin skili sér ekki þangað heldur eitthvert annað. Það verður þess jafnvel valdandi að verð á leigumarkaði hækkar enn frekar með þeim afleiðingum að staðan er verri fyrir alla. Þetta er auðvitað eitt sem þarf að hafa í huga.

Ég veit að við endurskoðun á húsnæðiskaflanum öllum og við setningu þessara laga 2016 var búin að fara fram gríðarleg umræða um þetta kerfi allt saman. Þetta varð niðurstaðan. En ég velti því fyrir mér, virðulegur forseti, hvort það eigi ekki að vera fullt frelsi, sem það er auðvitað, fólks til að búa eins og það vill. Fólk má alveg búa margt saman í kommúnu en það er þetta skilyrði varðandi húsnæðisbæturnar. Mér finnst mikilvægt að horfa til þess, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir talaði um áðan, að við horfum upp á ákveðna einangrun og einmanaleika. Ég held að það hafi verið í fréttum nýverið að breska ríkisstjórnin var komin með ráðherra einmanaleikans. Ég átta mig ekki fullkomlega á því hvað sá ráðherra á að gera en það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um að þetta sé raunverulegt vandamál í nútímasamfélagi.

Mér var líka hugsað til þess að það er mjög algengt þegar við horfum á bíómyndir eða gamanþætti eða annað, oft um ungt fólk, þá yfirleitt býr það saman. Það er yfirleitt skrýtni einstaklingurinn sem býr einn. Ég ætla að taka fræga þáttaröð eins og Friends sem dæmi um það, hún heitir á íslensku, virðulegur forseti, Vinir. Ég held að víða erlendis sé meiri menning hvað þetta varðar en hér á Íslandi. Þótt ég sé mjög hlynnt séreignarstefnunni hvað það varðar og þyki mikilvægt að allir sem vilji hafi kost á því að eignast fasteign, ég held að allar rannsóknir sýni að flestir vilji það, þá er orðinn miklu meiri hreyfanleiki á öllu og fólk vill hafa tækifæri til að geta flutt á milli staða og það eru ekkert allir sem vilja festa eign í steypu. Þá er mikilvægt að við séum með öflugan leigumarkað fyrir þessa aðila. En við erum svolítið sein á ferði þegar kemur að deilihagkerfinu. Ég minnist þess að í gamla daga þegar ég bjó í blokk með móður minni að það var alltaf t.d. leikherbergi á neðstu hæð, í kjallaranum. Það þekktist mjög víða. Ég var ekki alls fyrir löngu að ræða það við byggingarverktaka hvernig það væri með svona þætti. Er ekkert verið að huga að þessu lengur? Og það er bara niðurstaðan. Þessu var öllu breytt. Það virtist ekki vera áhugi á því. Meira að segja sameiginleg þvottahús sem tíðkast eiginlega alls staðar í heiminum; við á Íslandi erum í auknum mæli að færa þetta inn í íbúðir með tilheyrandi kostnaði og fjárfestingu fyrir hvern og einn. Það er eins og Íslendingar séu aðeins of uppteknir af þessu. Víða erlendis þekkist meira að segja að það séu einhvers konar samkomusalir eða bókasöfn jafnvel eða eitthvað þess háttar. Foreldrar mínir bjuggu á tímabili í Hong Kong, þar voru heilu bókasöfnin, keilusalir og bíósalir og allt, sem var hægt að leigja eða sækja eftir „behag“. Mér þykir þetta svolítið áhugavert.

Ég er mjög spennt að heyra það sem kemur út úr umsögnum um þetta ágæta mál. Ég segi fyrir mitt leyti að ég myndi jafnvel vilja ganga lengra og taka út þetta sérákvæði um eldhús og eldunaraðstöðu, auðvitað að því gefnu að það verði ekki þess valdandi að auka möguleika fólks á að svindla einhvern veginn á kerfinu. Þess vegna held ég að sé mikilvægt að við fáum umsagnir frá fagaðilum og þeim sem þetta mál þekkja því alltaf þegar við komum svona kerfi á laggirnar verðum við að gæta að því að aðstoðin fari þangað sem hún á raunverulega að fara.