149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

húsnæðisbætur.

140. mál
[16:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frelsi einstaklingsins hljómar mjög vel í mínum eyrum í þessu máli sem öðrum. Mig langar að fá tækifæri til að koma því á framfæri sem mér láðist að nefna áðan. Ég sá þegar ég fór að leita á veraldarvefnum að Íbúðalánasjóður lét nýlega gera skoðunarkönnun fyrir sig varðandi leigumarkaðinn. Hv. þingmaður vísaði einmitt í ákveðinn hluta þeirrar könnunar eða annarrar könnunar á þeim tíma.

Þar kemur í ljós að leigumarkaðurinn er ekki síður stór úti á landsbyggðinni. Það er oft talað eins og hann sé fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu en í ljós kemur að það munar mjög litlu. Ákveðin svæði eins og Reykjanes eru tekin út þar sem er mjög hátt hlutfall leiguhúsnæðis, sem kemur væntanlega til vegna aukins framboðs eftir að herinn fór og það svæði var gert upp. Ég geri ráð fyrir því að það hafi áhrif. Þá finnst mér áhugavert að skoða hvaða áhrif þetta gæti haft á landsbyggðinni þar sem er minna af fjölbýlum og meira af stærra húsnæði, sem gæti þar af leiðandi svolítið opnað þennan möguleika.

Ég hvet því hv. þm. Halldóru Mogensen, sem jafnframt er formaður velferðarnefndar sem fær málið til sín, að skoða vel og vandlega hvort horfa eigi á einstaklinginn óháð því hvort viðkomandi flokkast sem öryrki eða námsmaður, að ef hann uppfyllir ákveðin skilyrði og þarf á húsnæðisbótum að halda eigi hann rétt á þeim. Ég held í fljótu bragði, ég viðurkenni að ég er ekki búinn að leggjast yfir þetta, að þetta sér- fyrir framan baðherbergi og eldunaraðstöðu sé kannski það sem hlutirnir snúast um.

Ég jafnframt ítreka það sem ég sagði áðan, að eins og maður aðhyllist einfalda lagagerð eru oft alls konar ástæður fyrir hlutunum. Ég hygg að nefndin þurfi að leggjast vel yfir þær umsagnir sem berast og fá til sín góða gesti til að fara vandlega yfir þetta.