149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Nei, ég kom ekki með breytingartillögu, eða við í mínum flokki. Ég mat það þannig að þetta væri skref í rétta átt og þar af leiðandi kom ég ekki með breytingartillögu.

Varðandi það að framlengja þetta fram yfir áramótin og fara áfram með óbreytt veiðigjaldalög inn í næsta ár líst mér alls ekki á. Það myndi þá vera mikil hækkun á næsta ári og svo vitum við ekkert með framhaldið, kannski lækkun á hinu árinu út af viðmiðun við 2017.

Ég tel að það sé skref í rétta átt að færa þetta nær í tíma og taka fiskvinnsluna út og koma því inn til ríkisskattstjóra. Dropinn holar steininn í (Forseti hringir.) þessu eins og öðru.