149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

eineltismál.

[15:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er eitt af þessum málum sem við eigum að ræða hér á Alþingi og skiptir allt samfélagið gríðarlega miklu máli. Við vitum auðvitað öll að einelti er það versta sem börn og fullorðið fólk lendir í og það er bara þannig að einelti á ekki að líðast. Við eigum öll að segja ávallt nei við einelti.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að við erum að vinna að nýjum verklagsreglum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er varða fagráð eineltismála og að það starfi bæði fyrir grunnskóla- og framhaldsskólastigið. Það hefur áður starfað einvörðungu fyrir grunnskólastigið. Ráðið er tiltölulega nýtt en hlutverk þess er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála. Ef skólinn á í erfiðleikum með að koma í veg fyrir einelti eða á erfitt með að vinna að úrlausn þessara mála er hægt að leita til fagráðsins, en hlutverk þess er í fyrsta lagi að veita almenna ráðgjöf, í öðru lagi leiðbeiningar og svo í þriðja lagi upplýsingagjöf. Nemendur, foreldrar og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla getur leitað eftir aðkomu þess ef ekki tekst að vinna að fullnægjandi lausn eineltismála.

Við erum auðvitað stolt af fagráðinu og það er á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytisins en framkvæmdin er hjá Menntamálastofnun. Við þurfum alltaf að vera vakandi gagnvart þessum málaflokki og hvernig þessi mál eru að þróast. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að við erum að taka á þessum málum og lítum til fagráðsins hvað það varðar.