149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

eineltismál.

[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að við erum svo sannarlega í sama liði hvað þetta varðar. Fagráðinu er ætlað að taka á þessum málum ef skólasamfélagið eða viðkomandi skóli og/eða forráðamenn barnsins telja að ekki sé tekið þannig á málunum að það sé fullnægjandi lausn. Þá kemur fagráðið inn í. Ég tel að það verði mikið framfaraspor að efla það enn frekar. Fagráðið var sett á laggirnar 2016, ef ég man rétt, og nú erum við að uppfæra enn frekar og styrkja alla umgjörðina í kringum það. En mér finnst mjög mikilvægt að við öll hér inni, hvort sem við erum foreldrar eða hvernig svo sem það er, séum mjög meðvituð um þessi mál og sendum rétt skilaboð til barnanna okkar, að við líðum ekki einelti. Svona forvarnir byrja að mínu mati fyrst og síðast á heimilum barnanna.

Ég get enn og aftur fullvissað þingmanninn um að við erum svo sannarlega í sama liðinu hvað þetta varðar. Við líðum ekki einelti.